Foreldrarölt

Skipulag vetrarins.

19.10.2016

Nú er komið að foreldraröltinu okkar í vetur.

Fyrirkomulagið er þannig að hver bekkur ber ábyrgð á að manna á hverjum föstudegi röltið. Vinsamlega skráið hjá ykkur þann dag sem ykkar bekkur á rölt. Bekkjafulltrúar gætu líka skráð hjá sér hvenær þeirra bekkur á rölt og séð um þegar nær dregur að minna aðra foreldra eða forráðamenn á og að það sé á ábyrgð viðkomandi forráðamanna að taka einn föstudagsgöngutúr. Ekki er ætlast til að bekkjarfulltrúar umfram aðra foreldra rölti. Ábyrgðin fyrir foreldrarölti liggur hjá öllum forráðamönnum viðkomandi bekkjar.

Markmið foreldraröltsins er m.a. að koma í veg fyrir óeðlilega hópamyndun unglinga eftir löglegan útivistartíma, stöðva foreldralaus partý í heimahúsum, efla og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu og vera góð fyrirmynd. Sýnileiki foreldra getur jafnframt verið forvörn gegn því að "sölumenn" óæskilegra efna geri sig heimkomna í hverfið okkar. Einnig er þetta góð leið til að kynnast hvert öðru svo ekki sé minnst á hreyfinguna. 

Í fyrra vetur gekk illa að manna foreldrarölt í Áslandinu. Þó voru örfáir sem röltu og erum við þeim þakklát en miðað við aðra grunnskóla sem við viljum bera okkur saman við þá voru foreldrar/forráðamenn í Áslandsskóla áberandi sinnulaus gagnvart þessum mikilvæga öryggisþætti í umhverfi barnanna okkar. Betur má ef duga skal! Búum börnum okkar öruggt umhverfi. Með þínu framlagi leggur þú því lið.

Íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðar hefur sent foreldrafélaginu tölvubréf núna í haust í þeim tilgangi að árétta mikilvægi foreldraröltsins. Hann ásamt lögreglu er þessa dagana í sérstöku átaki með það að markmiði að sporna við slæmri þróun í Hafnarfirði þar sem hópamyndun barna á aldrinum 12-17 ára er að aukast, sér í lagi í miðbæ Hafnarfjarðar. Að hans mati sýnir reynslan að þetta muni hafa neikvæðar afleiðingar fyrir sum þessara barna.

Foreldraröltið er einfalt í framkvæmd en þeir sem rölta ættu að hafa með sér síma. Hægt er að hringja í starfsmenn Götuvitans til að fá aðstoð ef með þarf. GSM: 664-5777.

Áríðandi er að skila skýrslu um röltið, hún þarf ekki að vera löng. Hver hópur skilar skýrslu rafrænt: https://goo.gl/50DR9n eftir sitt rölt. Ef vandræði er með rafrænt form þá er hægt að senda skýrslu á foreldrafelag@aslandsskoli.is 

Allar upplýsingar varðandi röltið eru hér: http://www.aslandsskoli.is/foreldrar/foreldrarolt/

Í lok vetrar fær sá bekkur, þar sem flestir foreldrar mæta og skrifuð er skýrsla, sérstök hvatningarverðlaun fyrir allan bekkinn.

Ef einhverjar spurningar vakna eða þið hafið ábendingar á endilega hafið samband við foreldrafelag@aslandsskoli.is


Göngukveðja,
Stjórn foreldrafélags Áslandsskóla


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is