Frábærir fulltrúar Áslandsskóla í Hafnarborg

9.3.2017

Það var mikið um dýrðir í Hafnarborg þriðjudaginn 7. mars en þar fór fram lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar. Þar áttum við í Áslandsskóla tvo glæsilega fulltrúa, þær Birgittu Kristínu S. Scheving og Erlu Rúrí Sigurjónsdóttur. Áður hafði farið fram undankeppni hér í skólanum sem lauk með því að nemendur komu fram á sal skólans þar sem Birgitta Kristín og Erla Rúrí voru valdar úr hópi sam-nemenda sinna. En í raun og veru eru allir þátttakendur sigurvegarar, allir fá mikla og góða þjálfun og kennslu og nemendur taka miklum framförum.

Lokahátíðin fór síðan fram í vikunni í Hafnarborg undir öruggri stjórn Ingibjargar Einarsdóttur fyrrum skrifstofustjóra Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. Ingibjörg hefur staðið vörð um þetta risastóra þróunarverkefni sem upplestrarkeppnin er og á mikinn heiður skilið fyrir frábært starf. Án ræktarsemi hennar við verkefnið hefði það aldrei dafnað eins vel og það hefur gert. Allir grunnskólar Hafnarfjarðar sendu tvo keppendur til hátíðarinnar í Hafnarborg.

Það er skemmst frá því að segja að dömurnar okkar tvær stóðu sig frábærlega í Hafnarborg og fluttu sína texta framúrskarandi vel. Á endanum var það síðan Erla Rúrí sem stóð uppi sem sigurvegari keppninnar fyrir árið 2017 og fetaði þar með í fótspor Hönnu systur sinnar sem sigraði í keppninni árið 2010. Þetta er í þriðja skiptið sem Áslandsskóli sigrar í Stóru upplestrarkeppninni, því auk þeirra systra sigraði Ásta Margrét Eiríksdóttir í keppninni á sínum tíma.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is