Hjálmana á

4.5.2012

Nú draga bæjarbúar fram reiðhjólin sín með hækkandi sól. Því miður hefur borið á því að börn séu án hjálma auk fullorðinna. Í umferðalögum kemur fram að börn yngri en 15 ára skuli vera með hjálma og okkur ber að virða þær reglur hvort sem þær fjalla um hjálma eða aksturshraða.
Það er ástæða fyrir því að börnum er skylt að nota reiðhjólahjálma.  Jú, slysin gera ekki boð á undan sér.  Þess vegna ættum við að reyna að gera það að sjálfsögðum hlut að börnin okkar hjóli með hjálm. Þetta ætti einnig að gilda gagnvart hlaupahjólum, hjólabrettum og sambærilegum leikföngum.
Við fullorðna fólkið erum fyrirmyndir barnanna og þrátt fyrir að lögin skyldi okkur ekki til að vera með hjálm ættum við engu að síður að temja okkur þessa reglu.  Því slysin gera ekki boð á undan sér hvort sem maður er fullorðin eða barn.
Þeir sem keppa á hjólum, hjólabrettum, skíðum og hestum  eru með hjálma, þeir sem ferðast daglega í vinnuna eru með hjálma og í dag eru hjálmarnir til í allskonar útgáfum í næstu reiðhjólaverslun.
Kiwanishreyfingin hefur í áraraðir gefið  öllum 6 ára börnum hjálma í Hafnarfirði.  Kiwanismenn mega svo sannarlega eiga hrós skilið fyrir framtak sitt.

Kæru Hafnfirðingar, hjálmana á.
Geir Bjarnason forvarnafulltrúi og reiðhjólamaður

Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is