Frístundaheimilin - Hvað ætlar ÍTH að gera?

24.2.2012

Eftirfarandi grein birtist í Fjarðarpóstinu 23. febrúar:

{nl}

Stjórn foreldrafélags Áslandsskóla lýsir yfir áhyggjum sínum af þeim ramma sem frístundaheimili Hafnarfjarðar vinna eftir. Einn verkefnastjóri sér um allt skipulag, faglegt starf og starfsmannamál frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar, auk samskipta við foreldra og skólayfirvöld. Þetta er flókið verkefni og ljóst að það er erfitt fyrir einn aðila að sinna öllum þeim skyldum svo það nýtist börnum og unglingum skólans sem best.

{nl}

Í Áslandsskóla eru um 100 börn í frístundaheimilinu og um 45 börn sækja félagsmiðstöðina. Starfsmannavelta frístundaheimilisins hefur verið mikil og  bitnar á gæðum starfsins og tengingu barnanna við starfsfólkið. Starfsfólkið og verkefnastjórinn sem þarna vinna gerir sitt besta í þessu mikilvæga starfi við þær aðstæður sem nú eru og þeim ber að hrósa fyrir það.

{nl}

Viðmið virðast vera til um hversu mörg börn mega vera á hvern starfsmann í frístundaheimilinu en í veikindum, forföllum og starfsmannaeklu spyrja foreldrar hvort það sé ásættanlegt að einn starfsmaður sé með jafnvel 30 börn á sinni ábyrgð? Í framhaldi af þessu má velta fyrir sér líf-, starfsaldri og reynslu starfsfólks frístundaheimilanna. Er boðlegt að bjóða starfsfólki upp á þetta vinnuumhverfi? Er boðlegt að bjóða börnum upp á þetta vinnuumhverfi? Eru börn með sérþarfir að fá stuðning við hæfi þar sem starfsfólk hefur í mjög litlum mæli þá fagmenntun og reynslu sem til þarf? Frístundaheimilið er ekki ókeypis og hefur kostnaður foreldra hækkað um 20% milli áranna 2011 og 2012.

{nl}

Samkvæmt frétt frá starfsfólki frístundaheimilis Lækjarskóla sem birtist á heimasíðu skólans hyggst ÍTH fara í stefnumótunarvinnu með frístundaheimilin í samráði við starfsfólk, samstarfsaðila og forráðamenn. Ekkert samráð hefur verið haft við forráðamenn barna í Áslandsskóla vegna þessarar stefnumótunarvinnu. Ef innleiða á nýjar áherslur í starfið, þarf að fara byrja á því. Hvað ætlar ÍTH að gera þar til þessi stefnumótunarvinna verður innleidd?

{nl}

Stjórn foreldrafélagsins gerir sér grein fyrir því að allar breytingar taka tíma en það þarf samt að gæta þess að þrátt fyrir að ekki sé búið að fastmóta starfið séu börnin örugg og þeim líði vel í frístundaheimilinu. Nú eru liðnir 7 mánuðir síðan ÍTH tók við frístundaheimilunum og því spyrjum við hvenær hefst framtíðin og hvað verður gert þangað til?

{nl}

Stjórn foreldrafélags Áslandsskóla


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is