Bréf frá forseta Íslands til Áslandsskóla

25.5.2008

Bessastöðum 15 maí 2008

Kæri Leifur

Við Dorrit færum þér bestu þakkir fyrir aðstoð þína við heimsókn dönsku krónprinshjónanna til Íslands. Þær móttökur sem hjónin og við Dorrit fengum í Áslandsskóla af hálfu starfsmanna og nemenda voru skólanum til mikils sóma. Það er ekki amalegt að geta sýnt erlendum gestum svo glæsilega menntastofnun og allt hið unga og efnilega fólk, auk þess sem gestunum mátti vera ljóst af dagskránni að tengslin milli þjóðanna eru lifandi og traust.
Ég tel mikilsvert að við Íslendingar höldum góðu sambandi við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum og þá ekki síst við Dani sem reynst hafa okkur vinir í raun. Sú kynning sem krónprinshjónin fengu í Áslandsskóla var mikilvægur liður í því að efla vináttu þjóðanna.

Ég bið þig fyrir kveðjur og þakkir til starfsmanna skólans og nemenda fyrir þeirra framlag.

Bestu kveðjur

Ólafur Ragnar Grímsson
Forseti Íslands

Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is