Núvitund í Áslandsskóla

rannsóknarverkefni um innleiðingu núvitundar

11.12.2017

Áslandsskóli hefur ákveðið að taka þátt í rannsóknarverkefni um innleiðingu núvitundar í grunnskóla. Markmiðið með því er að meta árangur innleiðingar núvitundar á líðan, seiglu, almenna stýrifærni (t.d. tilfinningastjórnun og einbeitingu) og núvitundarfærni nemenda og kennara.

Út á hvað gengur verkefnið?

Verkefnið er til tveggja ára og er fyrirhugað að það hefjist í janúar 2018. Á fyrra árinu er áhersla lögð á núvitundarþjálfun fyrir starfsfólk og kennarar fá tækifæri til að sækja þjálfun í kennslu núvitundar fyrir börn og unglinga. Á seinna árinu hefst innleiðing núvitundar fyrir nemendur. Það skólaár munu kennarar skólans, sem hafa fengið viðeigandi þjálfun, annars vegar bjóða nemendum upp á núvitundarnámskeið og hins vegar innleiða aðferðir núvitundar í almenna kennslu. Í upphafi þess skólaárs munu foreldrar/forráðamenn jafnframt fá kynningu um hvað felst í núvitund og hvernig hægt sé að nýta aðferðir hennar í daglegu lífi. Erlendar rannsóknar hafa sýnt fram á að núvitundarþjálfun auki vellíðan, seiglu og almenna stýrifærni (t.d. tilfinningastjórnun og einbeitingu) hjá nemendum og kennurum og hefur innleiðing núvitundar í skóla reynst jákvæð upplifun bæði fyrir kennara og nemendur. Markmið rannsóknarinnar er í samræmi við Lýðheilsustefnuna sem var samþykkt í september 2016. Ekki er til sambærileg rannsókn hér á landi og því er markmiðið jafnframt að gagnreyna þessa heildrænu skipulögðu nálgun, meta hversu vel hún á við íslenskar aðstæður og leiðbeina okkur um næstu skref varðandi innleiðingu á núvitund í íslenskt skólastarf.

Hvað þurfa nemendur að gera sem taka þátt ?

Nemendur sem taka þátt verða beðnir að svara spurningakönnun sem verður lögð fyrir nemendur fædda árin 2005 og 2006 í fjögur skipti á þessum tveimur árum. Spurningakönnunin er rafræn og verður lögð fyrir á skólatíma og tekur um 30-45 mínútur að svara henni. Spurningarnar snúa að vellíðan, geðheilbrigði, hegðun og fleiri þáttum tengdum fyrrgreindum markmiðum rannsóknarinnar.

Rannsóknin verður kynnt fyrir nemendum og þeim boðið að taka þátt. Jafnframt verður óskað eftir skriflegu samþykki. Ekki er skylda að taka þátt í rannsókninni og hægt er að draga þátttöku til baka hvenær sem er á rannsóknartímanum.

Kennarar eru hluti af rannsókninni og munu svara sambærilegum spurningalistum um eigin líðan og metin verða áhrif núvitundarþjálfun þeirra.

 

Þar sem um rannsóknarverkefni er að ræða þá er mikilvægt að skriflegt samþykki foreldra/forráðamanna um þátttöku barna þeirra liggi fyrir. Svörin verða ekki persónurekjanleg og fyllsta trúnaður verður gætt við öflun og varðveislu gagna.

 

Hvað er gert með upplýsingarnar um nemendur?

Þar sem um langtímarannsókn er að ræða er nauðsynlegt að geyma persónuupplýsingar um þá sem taka þátt í rannsókninni á meðan á rannsókninni stendur. Einungis ábyrgðaraðili og umsjónarmaður gagna munu hafa aðgang að persónuupplýsingunum. Ítrustu varúðar verður gætt til að vernda þær. Á meðan á rannsókninni stendur munu persónuupplýsingar og gögn einungis vera tengd með ónafngreinanlegu auðkenni. Svörin eru því á engan hátt persónurekjanleg og verður ekki deilt með öðrum nema sem hluti af gagnasafni sem unnið er með á tölfræðilegan hátt. Svörin verða ekki uppgefinn með neinum hætti þar sem þeim er safnað í rannsóknarlegum tilgangi (ekki klínískum) og ekki hægt að nýta þau sem viðeigandi mat á áhættu eða leiðbeiningar um faglegan farveg fyrir viðkomandi. Nemendum verður gert ljóst að þó svo að þeir lýsi tilfinningalegri vanlíðan þá verða þær upplýsingar ekki gefnar upp. Eina undantekning á því að upplýsingum verði miðlað áfram er ef að upplýsingarnar koma fram í beinu samtali, símtali eða töluvpósti við rannsakendur, sem gefa ástæðu til að hafa áhyggjur af öryggi þess sem upplýsingarnar varða og munu rannsakendur koma þeim upplýsingum til viðeigandi aðila. Áhersla verður lögð á að veita börnunum upplýsingar um viðeigandi aðila sem þau geta sett sig í samband við og þau hvött til að ræða við ef þau hafa einhverjar spurningar eða áhyggjur af eigin líðan.

Hver sér um skipulag, framkvæmd og fjárhagslegan styrk fyrir rannsóknarverkefnið?

Framkvæmd verkefnisins er styrkt af Lýðheilsusjóði. Fagaðilar innan Núvitundarsetursins sem hafa sérhæft sig í nálgun núvitundar sjá um skipulag og framkvæmd verkefnis í samstarfi við Ragnar Pétur Ólafsson, dósent við sálfræðideild HÍ. Ábyrgðaraðili rannsóknarverkefnisins er Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir.

Hver hefur kynnt sér og samþykkt rannsóknarverkefnið?

Rannsóknarverkefnið er unnið með samþykki borgar- og bæjaryfirvalda og skólastjóra þátttökuskólanna. Rannsóknin hefur verið tilkynnt til Persónuverndar og skoða má tilkynninguna á heimasíðu Persónuverndar undir númerinu 17-168 og hefur samþykki Vísindasiðanefndar.

Hvað með áhættu eða ávinning af þátttöku?

Möguleg áhætta: Það er engin þekkt áhætta sem felst í því að taka þátt í þessu verkefni. Hins vegar nemendur spurðir spurninga um einkenni kvíða og þunglyndis sem þeim gæti þótt óþægilegt að svara. Nemendur munu verða upplýstir um að þeim sé velkomið að svara ekki einstaka spurningum. Þeim verður jafnframt veittar upplýsingar um viðeigandi aðila til að leita til ef þeir telja sig hafa þörf á því. Á kynningarfundi um rannsóknarverkefnið þá gefst foreldrum tækifæri á að kynna sér spurningalistana sem verða lagðir fyrir nemendur.

Mögulegur ávinningur: Með þátttöku í þessari rannsókn eru skólar, nemendur, og kennarar að leggja fram mikilvægt framlag til aukinnar þekkingar á því hvernig megi undirbúa ungt fólk til að efla geðheilbrigði og seiglu til að takast á við verkefni daglegs lífs á uppbyggilegan hátt og stuðla að jákvæðum skólabrag. Óháð því hvort að nemendur taki þátt í rannsókninni eða ekki þá gefst þeim kostur á núvitundarþjálfun sem vonandi gagnast því með bættri líðan, betri svefni og aukinni einbeitingu í námi. 


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is