Samvinna - Ábyrgð - Tillitssemi - Traust

20.3.2020

Kæru nemendur og foreldrar

Nemendur og starfsfólk hafa staðið sig framúrskarandi vel þessa óvenjulegu viku. Nemendur hafa til að mynda sýnt öguð vinnubrögð og nærgætni, til dæmis þegar þarf að hleypa þeim inn í nokkrum hollum í alls kyns veðrum. Vissulega er þetta aðeins vandasamara hjá þeim yngstu, þau eru aðeins óheftari en þau eldri hvað knús og snertingar varðar. En allir eru að reyna sitt allra besta til að fylgja skipulagi og fyrirmælum.

Skilningur okkar á lífinu eykst með því að meta fortíðina en samt sem áður þá lifum við í nútíðinni og framtíðin ræðst einmitt af því sem við gerum í dag og á morgun. Það er mikilvægt að fjölskyldur nýti helgina vel til þess að hlaða orkustöðvarnar, huga að okkar nánustu, róa og upplýsa þá sem kvíða næstu daga, hughreysta með brosi, rafrænu faðmlagi og bliki í auga.

Við vitum í raun ekki hvað næstu dagar bera í skauti sér annað en að við í Áslandsskóla erum tilbúin að halda okkar dagskrá eftir helgina, líkt og í þessari viku.
Við í skólanum reynum að upplýsa ykkur af bestu getu, þegar upplýsingar berast okkur en reynt er að halda þeim á samræmdum og miðlægum grunni.

Ég vil biðja ykkur að færa nemendum mínar allra bestu helgarkveðjur. Þau eiga risastórt hrós skilið, eitthvað sem við öll þurfum að fá að heyra í ríkari mæli þessi dægrin.

Hér fyrir neðan koma upplýsingar frá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra og Landlæknisembættinu. Ég vil biðja ykkur að fara vel yfir það efni með börnum ykkar. Öll þurfum við að hjálpast að og vanda okkur. Sýna samvinnu, ábyrgð, tillitssemi og traust.

Njótið helgarinnar.

Kveðja
Leifur skólastjóri


Efni frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Landlæknisembættinu.
Efni: Samkomubann og börn

Skólar, leikskólar og íþróttafélög hafa skipulagt vandlega fyrirkomulag næstu daga og vikur til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi og samkomum.
Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:
. Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.
. Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.
. Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim.
. Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er.
. Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
. Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.
Varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:
. Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra sem eru í sóttkví sem og við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skólastofu. Mikilvægt er að gæta að hreinlæti t.d. nota sér salernisaðstöðu.
. Foreldrar stálpaðra barna sem eru í sóttkví og geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta áfram sinnt vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki í boði.
. Heimilið verður allt að fara í sóttkví ef börn hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem gilda í sóttkví. Önnur leið til að leysa slíkt væri ef þeir sem ekki eru í sóttkví færu eitthvað annað á meðan á henni stendur.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is