Skólahald eftir páska - Ferðumst innanhúss - Góða ferð

8.4.2020

Kæru foreldrar/forráðamenn/nemendur

Eins og fram hefur komið verður skólahald með sama hætti eftir páskahátíðina. Nemendur mæta skv. sömu tímasetningum og verið hefur. Umsjónarkennarar eldri nemenda hafa í einhverjum tilvikum fært til í hópum til að mæta þörfum nemenda og fjölskyldna. Allt slíkt hefur verið unnið með þeim hætti að fyrirmælum Almannavarna og sóttvarnarlæknis er fylgt í hvívetna.

Þær breytingar verða þó á matarmálum að nemendur í 1. og 2. bekk fá áfram hádegishressingu við komu í skólann en ætlast er til þess að nemendur í 3. og 4. bekk komi vel nærðir í skólann þar sem ekki verður boðið uppá mat fyrir þau. Þá tökum við út ávaxtahressingu fyrir eldri nemendur, en nemendur í frístund fá áfram ávaxtahressingu. Til gamans má segja að þetta sé okkar viðleitni til að halda hverfinu hreinu. Rétt er að geta þess að ákvörðun um matarskipulag er miðlæg ákvörðun hjá sveitarfélaginu sem við fylgjum að sjálfsögðu.

Ég vil senda bestu páskakveðjur. Vona að allir fari varlega en njóti engu að síður heima fyrir. Gott gæti verið að létta alla lund með því að hlusta á nýja útgáfu af laginu Góða ferð sem gefið var út fyrir fáum klukkustundum síðan. Þar er skemmtileg Áslandsskólatenging. Feðgar leika stórt hlutverk en okkar maður í Ægisheimum-2.BB, Kristján Steinn Leifsson syngur og leikur á trompet. Sem er skemmtilegt þar sem Kristján Steinn hefur einmitt verið að læra á trompet hjá Eiríki skólastjóra tónlistarskólans í vetur og fer kennslan fram í Áslandsskóla.

Óska að lokum öllum í skólasamfélaginu í Áslandsskóla gleðilegra páska.

Ferðumst saman innanhúss.

Páskakveðjur og óskir

Leifur skólastjóri


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is