Titrar síminn? Blikkar hann eða heyrist hljóð?

26.1.2017

Hér áður var helsta verkefni kennarans við að skapa vinnufrið að koma í veg fyrir að nemendur væru að masa og einbeittu sér að verkefni kennslustundarinnar.  Gæti verið að í dag væru það önnur atriði sem trufluðu nám nemandans?

Samkvæmt erlendri rannsókn meðal 600 nemenda á aldrinum 13-17 ára viðurkenndu 42,5% nemenda að hafa sent skilaboð í kennslustund og yfir 50% þeirra segjast senda skilaboð oft eða stöðugt í kennslustundum.
 

Ótrúlega margir eða um 74% nemendanna fannst ekkert að því að senda skilaboð úr kennslustund, hugarfar sem klárlega hefur áhrif á frammistöðu þeirra í námi.

Önnur tölfræði í rannsókninni sem kemur manni óþægilega á óvart er að 7 af hverjum 10 nemendum hafa fengið skilaboð frá foreldrum sínum meðan þau eru í kennslustund, jafnvel þó svo að foreldrarnir kunni stundatöfluna utanbókar.

Sú almenna regla gildir í skólanum að ef nemendur þurfi nauðsynlega að tala í símann á skólatíma skulu þeir fara fram í anddyri skólans til þess.

Öll viljum við að börnin okkar nái sem bestum árangri.  Öll viljum við hámarka afköst þeirra í hverri kennslustund.  Öll viljum við ná sem bestum mögulegum vinnufrið sem hugsast getur.  Því er mikilvægt að allir hjálpist að við að takmarka truflun.
 

Ég vil því biðja foreldra að draga úr "ónauðsynlegum" skeytasendingum til nemenda á skólatíma.  Því þegar síminn titrar, blikkar eða gefur frá sér hljóð þá er svo freistandi að kíkja, ekki satt?


Skólakveðja

Leifur S. Garðarsson

Skólastjóri Áslandsskóla


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is