Út að hjóla? Vissirðu þetta ?

Umferðarfræðsla í grunnskólum ber mestan árangur þar sem gott samstarf við heimili nemenda næst

31.3.2020

Nú er daginn tekið að lengja og þá vex umferð barna í umferðinni, bæði við leik og á leið til og frá skóla. Því er við hæfi að rifja upp nokkur atriði varðandi umferðaröryggi sem gott er að hafa í huga. Umferðarfræðsla í grunnskólum ber mestan árangur þar sem gott samstarf við heimili nemenda næst. Hlutverk heimilanna í umferðarfræðslu og forvörnum er mikilvægt því þar er mótunin sterkust.

Við hvetjum ykkur til að nýta góða veðrið og ganga eða hjóla í skólann með börnunum ykkar svo fækka megi bílum sem aka að skólanum á morgnana. Umferð vélknúinna ökutækja skapar hvað mesta hættu við skólann. Að vera börnum sínum góð fyrirmynd í umferðinni er öflugasta fræðslan ásamt því að kenna þeim um lög og reglur sem eru í gildi. Það skiptir miklu máli að foreldrar viðhafi það sem þeir vilja að börnin tileinki sér.

Ný umferðalög tóku gildi þann 1.1.2020. Þau taka á ýmsum nýmælum varðandi hjólreiðar og hér að neðan má sjá þau ásamt öðrum mikilvægum atriðum.

Athygli er vakin á:

· Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti einstaklings sem náð hefur 15 ára aldri.

· Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða barn yngra en 7 ára. Barnið verður þá að vera í sérstöku sæti, þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólateinum.

· Barn yngra en 16 ára er skylt að nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.

· Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra á meðan á akstri stendur gert skýrar en áður var. Þetta á jafnt við um ökumenn vélknúinna ökutækja sem og hjólreiðamenn.

· Í lögunum er kveðið á um að hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki (t.d. með bjöllu) þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.

· Þegar hjólað er á gangstíg ber að hafa í huga að hjólreiðamaður er þar gestur. Það má hjóla á göngustíg ef sýnd er sérstök aðgát og tillitsemi við gangandi vegfarendur.

· Í lögunum er undirstrikað mikilvægi þess að vera sýnilegur á reiðhjóli. Hafa skal ljós kveikt í rökkri, myrkri eða ljósaskiptum.

· Hvetjum börnin til að nota endurskin og klæðast fatnaði sem er vel sýnilegur.

· Ökumaður sem ætlar að beygja þvert á hjólarein skal veita umferð hjólreiðamanna á reininni forgang. Þetta er einnig mikilvægt að hafa í huga við allar þveranir á gatnamótum og þar með talið þegar farið er inn og út úr hringtorgi. Sama á við um tillit og forgang sem veita skal gangandi vegfarendum.

· Að lokum má benda á að hér á heimasíðu Samgöngustofu má finna góðar upplýsingar um létt bifhjól í flokki I (Rafvespur). Hér er t.d. mjög góðar upplýsingar í einblöðungi sem vert er að lesa. 


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is