Vegna mataráskriftar og greiðslu fyrir mataráskrift

1.4.2020

Til foreldra nemenda sem eru í mataráskrift í Áslandsskóla

Við þær fordæmalausu aðstæður, sem komu upp í grunnskólastarfi í kjölfar samkomubanns núna í mars, þurfti að taka ákvarðanir hratt um næstu skref í matarmálum sem og öðrum í skólastarfinu. Miklar takmarkanir voru settar á skólastarfið án nokkurs fyrirvara og grunnskólum gert ómögulegt að halda úti eðlilegri matarþjónustu í mötuneytum sínum.

Við höfum leitast við að finna leiðir til að leysa úr því flækjustigi sem þetta hafði á matarþjónustu í Áslandsskóla. Þessar aðstæður bjuggu því til nauðsyn þess að finna leiðir, helst einfaldar en um leið sanngjarnar, til að vinna úr því hvernig ætti að takast á við framkvæmd matarmálanna í samkomubanni þar sem ekki var hægt að afhenda mat á hefðbundinn hátt. Foreldrar eru búnir að greiða fyrir marsmánuð en skólastarfið er skert.

Greiðslur gegnum Matartorgið greiddu foreldrar, eða eiga að greiða sé það eftir, vegna mataráskriftar fyrir marsmánuð, en hefðbundin matarþjónusta var aðeins fyrri hluta mars. Rétt er að gera þess að greiðsluseðlar fyrir mars bárust með seinni skipunum. Það merkir að það á eftir að afhenda seinni hluta mataráskriftar fyrir þann mánuð. Miðað er við að hún verði afgreidd síðari hluta aprílmánaðar eða þegar skólastarf kemst aftur í eðlilegt horf. Þess vegna fellum við niður greiðslur foreldra vegna matarþjónustu grunnskólanna í apríl. Næstu innheimtur fyrir mat komi þá í maí sé miðað við að grunnskólastarfið komist í eðlilegt horf strax eftir páska.

Með þessari framkvæmd tryggjum við að allir foreldrar fái haldið þeirri mataráskrift sem þeir greiddu. Nemendur munu fá matinn sem vantar afhentan þegar skólastarf hefst á ný. Ekki er því hægt að afturkalla fyrri pöntun (marsmánuður) en að öðru leyti gildir að foreldrar þurfa að panta og afpanta mataráskriftir í samræmi við skilmála sem kynntir hafa verið.

Við viljum þakka ykkur fyrir þolinmæðina og ábyrgðina sem þið hafið tekið í þessum aðstæðum sem nú ganga yfir. Við biðlum því til ykkar að sýna þessu flækjustigi skilning og að þessi framkvæmd sem hér ofar er kynnt fái að ganga eftir á sem eðlilegastan hátt.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is