Upphaf grunnskólagöngu

Fyrsti skóladagurinn er stór dagur í lífi sex ára barna. Dagurinn sem flest börn hafa beðið óþreyjufull eftir. Dagurinn sem markar upphaf af löngum og viðburðaríkum þroska barnsins. Að mörgu er að huga þegar þessi fyrstu viðkvæmu skref eru stigin.
Fyrsti bekkur er grunnurinn af því sem koma skal í grunnskólanum. Margir halda að fyrsti bekkur sé bara leikur og að börnin "læri" ekkert nýtt, jú kannski að lesa og skrifa. En það er margt kennt í fyrsta bekk bæði bóklegt og ekki síður hvernig er að vera í skóla og til hvers er ætlast af nemendum, hvort sem er í hegðun, framkomu, leik eða starfi,

Hér eru góðir punktar fyrir foreldra sex ára barna:

• Styðjið barnið á jákvæðan hátt og verið hvetjandi.
• Hvetjið barnið til sjálfstæðis, til dæmis hvað varðar að reima skó, klæða sig og að fara á salernið.
• Ef barnið kann ekki að reima notið þá skó með frönskum rennilás.
• Vandið valið þegar skólataskan er keypt. Taska með hörðu baki hentar best fyrstu skólaárin.
• Pennaveski með trélitum og blýanti eru oft ekki hentug því börnunum gengur betur að skrifa og teikna með breiðum, þríhyrndum litum og blýöntum meðal annars til að auðvelda rétt grip.
• Kaupið breiða þríhyrnda blýanta og tréliti, þeir eru dýrari en þessir hefðbundnu en margfalt betri fyrir barnið.
• Dósayddari með breiðu gati.
• Trélitir og aðrir litir fara betur í sér pennaveski.
• Strokleður eru misgóð, marglit fígúrustrokleður eru yfirleitt ekki góð.
• Hafið nestið alltaf í nestisboxi.
• Hafið hollustuna í fyrirrúmi þegar nestið er smurt.
• Nýtið ykkur viðtalstíma kennara. Þau daglegu samskipti sem eru á milli foreldra og leikskólakennara eru ekki lengur til staðar og oft hitta foreldrar ekki kennara barna sinna nema á foreldrafundum. Því er mikilvægt að vera í sambandi við kennara og nýta sér þennan viðtalstíma.
• Verið dugleg að láta barnið æfa stafina sem verið er að fara í hverju sinni og lesa heima. Æfingin skapar meistarann!
• Þjálfið barnið í að hlusta og fara eftir leiðbeiningum.
• Munið að barnið er ekki lengur á leikskóla og í grunnskólanum eru allt aðrar áherslur og meiri kröfur um sjálfstæði og vinnusemi barnanna.
• Brýnið fyrir börnum umburðarlyndi og tillitssemi gagnvart hvert öðru. Við erum jú öll ólíkir einstaklingar.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is