Námsmat og prófareglur

Námsmat skólans byggir á símati, prófum, könnunum og öðrum verkefnum.

Varðandi almenna próftöku í unglingadeild

Þegar nemandi er fjarverandi þegar próf er lagt fyrir tekur hann prófið í næstu kennslustund í faginu.
Ef viðkomandi tekur ekki prófið þegar hann mætir í næstu kennslustund í faginu fær hann 0 í einkunn.

Próf og kannanir

Kennari ber ábyrgð á prófagerð í þeirri námsgrein sem hann kennir og skal vinna öll próf/kannanir á tölvu og setja inn í banka á sameign kennara. Hægt er að fá aðstoð frá skrifstofu skólans við ljósritun með því skilyrði að beiðni sé komin með þriggja daga fyrirvara.

Öll próf, kannanir og verkefni fara í námsmatsmöppu.

Forföll nemenda þegar námsmat fer fram

Í Áslandsskóla er símat sem byggist á mörgum þáttum. Verði nemandi forfallaður einu sinni þegar námsmat fer fram ætti það ekki að koma að sök. Aftur á móti ef þessum skiptum fjölgar getur það haft áhrif á heildareinkunn. Því er mikilvægt að kennari fylgist vel með og meti hvort ástæða er til að viðkomandi vinni upp það sem hann hefur misst úr.

Það er mikilvægt fyrir kennara að fylgjast vel með námsmati hvers nemanda og bregðist við svo hann standi ekki uppi með engar upplýsingar þegar til kemur.

Verkefnabók í Mentor

Í upphafi annar eiga kennarar að stofna verkefnabækur í hverju fagi fyrir sig. Hér eru allar einkunnir skráðar yfir veturinn. Verkefnabók reiknar síðan út lokaeinkunn sem hægt er að færa á vitnisburð.

Stjörnumerkt próf

Þeir nemendur sem eru með námsfrávik og taka einstaklingsmiðuð próf fá stjörnumerkta einkunn í námsmati.

Vitnisburðarblað

Nemendur fá vitnisburð með umsögnum ásamt einkunnum að vori.
Einkunn og umsögn er gefin í öllum greinum í 5.–10. bekk Áslandsskóla nema í lífsleikni þar er gefin umsögn. Einkunn er í heilum og hálfum tölum, nema í lestri. Þar er gefið samkvæmt einkunnarskala í lestri og fjöldi atkvæða er einnig gefinn upp.
Í 1.-4. bekk er gefin umsögn í öllum greinum.
Námsmat skal vera upplýsandi, leiðbeinandi og hvetjandi.

List- og verkgreinakennarar skulu gefa einkunn og umsögn og skila af sér tveimur vikum eftir að lotunni lýkur. Einkunn og umsögn fer líka í vitnisburð. Þetta á einnig við um íþróttir og sund.

Þeir nemendur sem eru með einstaklingsmiðaðanámskrá fá umsögn þess efnis á vitnisburðarblaði.

Allar einkunnir og umsagnir eru færðar inn í MENTOR.

Umsjónarkennari les vel yfir vitnisburð m.t.t. málfars og stafsetningar, finni hann villur eða hafi athugasemdir snýr hann sér til viðkomandi kennara. Einnig geta aðstoðarskólastjóri, deildarstjórar og skrifstofustjóri aðstoðað við leiðréttingar.

Umsögn

2.-7. bekkur

Eftirfarandi þættir birtast til viðbótar faglegum greinum á vitnisburðarblaði.

Umsjónarkennarar sjá til þess að eftirfarandi þættir komi fram.

 • Námsgreinar
 • Heimavinna
 • Almenn Umsögn
 • Tungumál 5.-7. bekkur
 • Faglegt mat um hvernig viðkomandi stendur sig í námsefninu.
 • Umsögn um skil og vinnubrögð á heimavinnu.
 •  Hegðun/framkoma, vinnusemi og vinnubrögð.

 • Hegðun/framkoma, heimavinna, vinnusemi og vinnubrögð

Námsmatsmappa

Námsmat í Áslandsskóla er í sífelldri þróun. Markmiðið er að vera með stöðugt alhliða námsmat (símat). Í því felst reglulegt eftirlit með vinnu nemenda þar sem nemendur og forráðamenn eru upplýstir jafnóðum um stöðu nemenda. Tilgangur námsmats er að kennarar meti nám og framfarir nemenda reglulega og að forráðamenn, kennarar og nemendur geti glöggvað sig með árangursríkum hætti á því hvernig miðar í náminu. Í þessu felst að ekki eru prófalotur, heldur fer námsmat fram jafnt og þétt yfir skólaárið með fjölbreyttum hætti. Þetta þýðir einnig að eitt próf/verkefni getur ekki staðið eitt og sér sem einkunn á vitnisburðarblaði.

Mestu máli skiptir að nemendur viti fyrirfram hvaða þættir verða metnir og til hvers er ætlast af þeim. Mat á að endurspegla skólastarfið hverju sinni og á að vera í samræmi við skólanámskrána og aðalnámsskrá grunnskóla.

Námsmat getur verið í formi

 • Sjálfsmats
 • Munnlegra prófa
 • Skriflegra prófa
 • Kannana
 • Einstaklingsverkefna
 • Hópverkefna
 • Skýrsla
 • Ritgerða
 • Matsblaða
 • Jafningjamats
 • Verkefnabóka
 • og fleiri þátta.

Námsmatsmappa Áslandskóla er þróunarverkefni sem hófst haustið 2007. Í námsmatsmöppuna er safnað saman öllu því námsmati sem fer fram, forráðamönnum og nemendum til upplýsinga. Með þessu gefst nemendum og forráðamönnum tækifæri til að bregðast strax við ef þörf er á.
Námsmatsmappan fer heim sex sinnum yfir skólaárið. Brosbókin fer einnig heim með nemendum í 1. – 7. bekk.

Námsmat á að vera upplýsandi, leiðbeinandi og hvetjandi fyrir nemendur.

Samræmd próf eru lögð fyrir samkvæmt fyrirmælum Menntamálastofnunar.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is