Frístundaheimilið Tröllaheimar

Hlutverk frístundaheimila er að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir börn á aldrinum 6-9 ára eftir að kennslu lýkur. Frístundaheimili hafa mikil áhrif á félagsþroska barna og eru vettvangur þar sem þau æfa sig í vináttu og samskiptum. Börnin læra að virða hvert annað og læra þar með að allir hafa sín séreinkenni og þurfa að hafa ákveðið svigrúm. Frístundaheimili gefa börnum fastan samastað fyrir starf og leik og er staður þar sem börn eru í fyrirrúmi. Þar er hlustað á þau, talað við þau og ekki síst er pláss fyrir tilfinningar þeirra á frístundaheimilinu.

Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í samskiptum í gegnum leik og starf sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Frístundaheimilið leitast við að viðhafa lýðræðislega starfshætti, efla hæfni barnanna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður.

Leitast er við að veita öllum börnum tækifæri til að taka þátt í frístundastarfi óháð getu þeirra, þroska eða fötlun þar sem sérstök áhersla er lögð á að koma til móts við alla.

Markmið frístundaheimila

Markmið frístundaheimila er að hvert barn fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu. Lögð er áhersla á að efla félagsþroska hvers barns og virðingu þess fyrir sjálfu sér, öðrum og umhverfi sínu. Við teljum mikilvægt að efla sjálfstæði og sjálfsmynd hvers barns og gera því kleift að kynnast eigin möguleikum og nýta hæfileika sína. Þá er markmið með starfsemi frístundaheimila að yngstu börn grunnskólanna hafi í boði öruggt umhverfi til að dvelja á eftir skóla með aðstöðu til örvandi og skemmtilegs frítímastarfs. Einnig er stefnt að því að veita börnum og foreldrum þeirra heildstæða þjónustu. Barnið og vellíðan þess er þungamiðjan í daglegu starfi.

Leiðir að markmiðum

Við lítum svo á að barnið þroskist og læri með því að taka virkan þátt í daglegu starfi frístundaheimilisins: Í útivistinni, í frjálsa leiknum og í skipulögðu hópastarfi. Við teljum að börn læri best með því að framkvæma (reynslunám/learning by doing) og að allir séu góðir í einhverju - enginn er góður í öllu. Eftirfarandi atriði lýsa vel nálgun okkar til að vinna að markmiðum starfsins:

·         Notum virka hlustun og sýnum börnunum hlýju og tillitssemi.

·         Leggjum áherslu á frjálsan leik, val barnanna og barnalýðræði.

·         Styrkjum félagslega stöðu barna með uppbyggilegri fræðslu og frístundastarfi.

·         Bjóðum upp á fjölbreytt starf þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi, s.s. föndur, myndlist, leiklist, tónlist, íþróttir og útiveru, vettvangsferðir og sögustundir.

·         Gefum börnum tækifæri og vettvang til að framkvæma hugmyndir sínar og tryggja þannig að styrkleikar og hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.

·         Beitum aðferðum barnalýðræðis og höfum börnin með í ráðum við gerð dagskrár og val á viðfangsefnum og ýtum þannig undir virkni, gagnrýni og skapandi hugsun.

·         Höfum yfirsýn og eftirlit með leiksvæðum og tryggjum öryggi og vellíðan barnanna.

·         Leitumst eftir samstarfi við íþrótta- og tómstundastarf sem í boði er í Hafnarfirði.

 

Almennar upplýsingar

Á veturna eru frístundaheimilin opin eftir að kennslu lýkur 13:00-17:00 alla daga. Sjá þó nánar um  vetrarfrí og sérstaka daga hér að neðan. Gjaldskrá frístundaheimilanna má sjá á heimasíðu Hafnarfjarðar. Innifalið í gjaldinu er síðdegishressing og vistun.

Gjaldskrár | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)
(https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/stjornsyslan/gjaldskrar/#fristundar)

 Síðdegishressing

Boðið er upp á síðdegishressingu í frístundaheimilum. Fyrirkomulag um framsetningu er mismunandi milli frístundaheimila.  En áhersla er á heilsueflingu, fjölbreytni og hollt mataræði. Ef barnið þitt er með sérþarfir þá þarf að skoða það hvort og hvernig við getum komið til móts við þarfir barnsins eða hvort betra er að barnið komi með eigið nesti.

Vetrarfrí skóla og sérstakir dagar 

Frístundaheimilin  eru lokuð alla rauða almanaksdaga og í vetrafríi grunnskóla. Auk þess eru frístundaheimilin með tvo skipulagsdaga á ári í byrjun haustannar og byrjun vorannar.  Opið er allan daginn á skipulagsdögum skólanna og virka daga í páska og jólafríi. Sækja þarf sérstaklega um vistun á þessum dögum. Deildarstjóri sendir nánari upplýsingar varðandi umsókn fyrir þessa daga til foreldra áður en að þeim kemur.

Skráning

Börn eru skráð í frístundaheimili í gegnum „Mínar síður“ á www.hafnarfjordur.is. og miðast við annafyrirkomulag. Skráning skal fara fram fyrir 1. júlí fyrir haustönn, þ.e. ágúst til og með desember, og fyrir 1. desember fyrir vorönn, þ.e. janúar til og með júní. Börn sem þurfa stuðning og nemendur sem eru að hefja skólagöngu í 1. bekk ganga fyrir (sjá nánar á heimasíðum skólanna).

Systkinaafsláttur

Systkinaafsláttur er veittur af dvalargjaldi vegna systkina sem eru samtímis í leikskóla eða hjá dagforeldri og á frístundaheimili. Systkinaafsláttur reiknast alltaf af elsta barni. Afsláttur reiknast af almennu dvalargjaldi fyrir hvert barn umfram eitt. Umsókn um systkinaafslátt fer fram í gengum „Mínar síður" á hafnarfjordur.is (sjá nánar á heimasíðum skólanna).

 

Fréttabréf Tröllaheima

Janúar 2020


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is