20 ára afmæli Áslandsskóla

17.9.2021

Fimmtudaginn 16. september voru liðin 20 ár síðan Áslandsskóli var stofnaður og var dagurinn haldinn hátíðlegur hér í skólanum með ýmsu móti.

Ekki var um hefðbundinn skóladag að ræða, nemendur tóku sig til og föndruðu skemmtilegt skraut til að prýða veggi skólans, til dæmis voru yngri nemendur í læri hjá þeim eldri að vefja dúska með dyggri hjálp leiðbeiningarmyndbanda af veraldarvefnum. Aðrir voru að búa til blóm og blöðrur svo eitthvað sé nefnt.

Að sjálfsögðu var boðið uppá köku á tilefni dagsins og svo um hádegisbil fylltist eldhúsið af pítsum frá Dominos og má með sanni segja að það hafi verið mikil kátína hjá nemendum með þá tilhögun.

Í lokin komu tveir danskennarar frá Dansskóla Brynju Péturs og kenndu öllum árgöngum grunnsporin í Hip Hop dansi. Það má með sanni segja að danskennslan hafi mælst vel fyrir. Mátti varla á milli sjá hvort kennarar eða nemendur skemmtu sér betur og var stuðið svo sannarlega í hæstu hæðum.

Í tilefni 20 ára afmælisins gaf foreldrafélagið hverjum bekk afmælisgjöf. Kristbjörg Kristbergsdóttir, fulltrúi foreldrafélagsins, kom í heimsókn og afhenti hverjum og einum bekk tómstundakassa með fótbolta, körfubolta, brennibolta, snú snú bandi og boltapumpu. Færum við þeim bestu þakkir fyrir. Dagurinn tókst vel í alla staði og fær starfsfólk skólans hrós fyrir að gera daginn sem eftirminnilegastan fyrir alla er að komu.

Við óskum nemendum og starfsfólki innilega til hamingju með daginn.

 

 


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is