Foreldrabréf

- mikilvægt að koma á reglu og rútínu.

27.8.2020

Þá hefur skólinn verið settur og nemendur glæða skólann okkar lífi á degi hverjum.

Undirbúningur skólastarfs gekk vel á undirbúningsdögum og starfsfólk eftirvæntingarfullt að hefja störf með nemendum skólans.

Það er mikilvægt að forráðamenn muni að þegar skólinn byrjar á ný er mikilvægt að koma á reglu og rútínu.

Hver nemandi þarf nægilegan svefn og góða næringu því nám og langur skóladagur krefst mikillar orku og þá er mikilvægt að vera úthvíldur.

Eitt hefur ekki breyst í aldanna rás, en það er að hver nemandi þarfnast ástar, hlýju og umhyggju. Faðmlag gerir gott.

Ég hvet forráðamenn að veita skólagöngu nemenda athygli, spyrja hvað var skemmtilegast í dag o.s.frv. Hér er vænlegt að vera hvetjandi gagnvart lestri og námi almennt. Spyrjið með jákvæðni að leiðarljósi. Jákvætt hugarfar hefur jákvæð áhrif á nemendur.

Í Áslandsskóla væntum við árangurs af nemendum og starfsfólki. Því er hjálplegt að forráðamenn hvetji barnið til þess að sýna metnað, seiglu, sköpun, sjálfstæði og útsjónarsemi. Aðstoðið, leiðbeinið, hjálpið, léttið undir en umfram allt, verið til staðar.

Skólaforeldrar eru stór hluti af skólasamfélaginu. Við eigum gott samstarf við stjórn foreldrafélags skólans og væntum mikils af góðu samstarfi við alla forráðamenn. Viðhorf forráðamanna er mikilvægur stuðningur við nám og þroska nemenda skólans.

Ég vil minna forráðamenn að skráning nemenda í hádegisverð og ávaxtahressingu fer fram í gengum matartorg.is. Ef einhver lendir í vandræðum þar er velkomið að hafa samband við skrifstofu skólans.

Hafragrautur er í boði fyrir nemendur frá 7.45-8.10 hvern morgun, en gaman var að sjá þann fjölda nemenda sem reglulega mætti í graut á síðasta skólaári.

Það er okkur mikilvægt að upplýsingar um forráðamenn séu réttar í Mentor. Því vil ég biðja alla að líta inn á Mentor og kanna hvort allt sé rétt þar inni, heimilisföng, netföng, símanúmer og þess háttar.

Skólastjóri sendi ástundunarreglur heimleiðis í gær. Þar er nákvæmlega útlistað hvernig fylgst er með ástundun nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar, en reglur eru samræmdar í öllum skólum bæjarins.

Spjaldtölvur verða afhentar nemendum í 6.-10. bekk á næstu dögum. Nýir nemendur við skólann þurfa að skila inn undirrituðum samningi sem þeir fá heimleiðis í tölvuskeyti, áður en þeir fá spjaldtölvu afhenta. Nemendur í 5. bekk fá sínar spjaldtölvur eftir að samræmdu prófi í 4. bekk lýkur seint í september.

Vegna ástandsins í samfélaginu verðum við að bíða með skólakynningar í húsi fyrst um sinn en nánari upplýsingar munu berast ykkur fljótlega.

Ég óska að endingu öllum í skólasamfélaginu okkar í Áslandi farsældar á skólaárinu. Munum að sýna samvinnu, bera ábyrgð, sýna tillitssemi og treysta hvert öðru. Tölum saman ef okkur vantar upplýsingar eða þurfum í lausnaleit.

Skólakveðja

Leifur S. Garðarsson

Skólastjóri Áslandsskóla


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is