Foreldrabréf - Í ljósi aðstæðna

23.9.2020

Kæru foreldrar/forráðamenn

Í ljósi nýjustu aðstæðna í þjóðfélaginu er ljóst að við í skólanum þurfum að breyta út frá áður auglýstu skipulagi. Neðangreindar upplýsingar lúta að takmörkuðu aðgengi forráðamanna að skólanum ásamt fleiri upplýsingum.

Foreldra- og nemendaviðtöl eru fyrirhuguð miðvikudaginn 7.10.2020. Ljóst er að þau verða ekki með hefðbundnum hætti. Kennarar munu undirbúa og skipuleggja viðtalsdaginn á sínum skipulagsdegi á mánudag í næstu viku. Forráðamenn fá upplýsingar í kjölfarið. Ýmislegt kemur til greina og verður það skoðað á skipulagsdegi.

Skólakynningar hafa alla jafna verið afstaðnar á þessum tíma árs. Vegna aðstæðna var ákveðið að bíða með þær. Kennarar munu skipuleggja skólakynningar með öðrum hætti en áður hefur verið. Líklega verður niðurstaðan sú að kennarar muni senda kynningar heimleiðis á allra næstu dögum. Forráðamenn fá upplýsingar á næstu dögum.

Í fyrramálið er morgunstund í yngri deild þar sem Ægisheimar sjá um dagskrána. Við verðum því miður að loka fyrir aðkomu forráðamanna á þessa morgunstund, fyrir utan að einn forráðamaður er þátttakandi í atriði á morgunstundinni og fær að mæta, en hann gætir ítrustu sóttvarna. Umsjónarkennari er búinn að vinna með nemendum sínum að undirbúningi og hefur verið í góðu sambandi við forráðamenn. Nýjar upplýsingar voru hins vegar að berast skólanum eftir hádegið í dag sem gerir það að verkum að við þurfum að breyta því sem áður hafði verið auglýst.

Við munum reyna að taka upp morgunstundina eða hluta hennar og senda á forráðamenn nemenda í Ægisheimum.

Forráðamenn geta því ekki mætt á morgunstundir né aðra viðburði í skólanum, fyrr en það verður sérstaklega tilkynnt.

Það er gífurlega mikilvægt að við minnum hvert annað á að við erum öll almannavarnir. Því er mjög mikilvægt að upplýsa skólann (umsjónarkennara og stjórnendur) ef fólk þarf í sóttkví eða greinist með veiruna, hvort sem um forráðamenn eða nemendur er að ræða. Þegar slíkar upplýsingar berast fer ákveðið ferli í gang og því mikilvægt að upplýsa okkur hið fyrsta.

Ég vil að lokum minna á atriði úr bréfi mínu frá í haust. Rétt er að minna á að hver nemandi þarf nægilegan svefn og góða næringu því nám og langur skóladagur krefst mikillar orku og því er mikilvægt að vera úthvíldur. Eitt hefur ekki breyst í aldanna rás, allra síst þegar aðstæður eru eins og þær eru í dag, en það er að hver nemandi, já og fullorðnir líka, þarfnast ástar, hlýju og umhyggju. Faðmlag gerir gott. Ég hvet forráðamenn að veita skólagöngu og líðan nemenda aukna athygli, spyrja hvað var skemmtilegast í dag o.s.frv. Það er vænlegt að vera hvetjandi gagnvart lestri og námi almennt. Spyrjið með jákvæðni að leiðarljósi. Jákvætt hugarfar hefur jákvæð áhrif á nemendur.

Gangi okkur öllum vel.

Skólakveðja
Leifur S. Garðarsson

Skólastjóri Áslandsskóla


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is