Lestrarkeppni grunnskólanna - Samrómur

Áslandsskóli tekur þátt í lestrarkeppni grunnskóla landsins

19.1.2021

Áslandsskóli tekur þátt í lestrarkeppni grunnskóla landsins. Lestrarkeppnin verður haldin í annað sinn þar sem keppt verður um fjölda setninga sem nemendur lesa inn í Samróm. Forseti Íslands setti keppnina formlega af stað í Fellaskóla mánudaginn 18.janúar en setningu keppninnar var streymt í beinni á Facebook-síðu Samróms. Keppnin stendur yfir í viku og lýkur 25. janúar.

Þessi keppni er haldin til þess að hvetja til þátttöku í verkefninu Samrómur sem snýr að því að safna upptökum af lestri sem notaður verður til þess að kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku, hægt er að lesa meira hér ( https://samromur.is/um ). Viðtökur við síðustu keppni voru stórkostlegar en 1430 manns tóku þátt fyrir hönd 130 skóla og lásu í kringum 144 þúsund setningar.

Allir geta tekið þátt og lesið fyrir sinn skóla með því að smella hér ( https://samromur.is/tala ) , biðja um leyfi foreldris/forráðamanns (hafi það ekki þegar verið gert), velja sinn skóla og lesa svo inn setningar sem vefurinn birtir. Staða keppninnar er síðan birt jafnóðum í stigatöflu sem verður aðgengileg á þessari síðu https://samromur.is/grunnskolakeppni . Allir geta tekið þátt og því eru foreldrar og starfsmenn ekki síður hvattir til þess að lesa inn fyrir skólana. Leifur skólastjóri las til að mynda 10 setningar í morgunsárið.

Keppnin í ár verður með sama sniði og í fyrra þó með þeirri breytingu að í ár verða þrír flokkar í stað tveggja og verða veitt verðlaun fyrir fyrsta sætið í hverjum flokki. Notast er við gögn frá Hagstofunni um fjölda nemenda sem og gögn frá keppninni í fyrra þegar skólum er raðað í flokka. Hver vinningsskóli mun fá 3 Sphero bolts vélmenni en vélmennin tengja saman leik og forritunarkennslu og eru hönnuð til að ýta undir forvitni, sköpun og nýjar uppgötvanir. Hér er hægt að lesa nánar um Sphero Bolt

Við hvetjum því alla sem vettlingi geta valdið til þess að taka þátt. Munið að fylla inn nafn skólans á réttum stað. Svo er skemmtileg afþreying í vikunni að fylgjast með stigakeppni grunnskólanna.

Áfram Áslandsskóli


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is