Námsgögn fyrir nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar

17.8.2017

Fræðsluráð Hafnarfjarðar ákvað á fundi sínum þann 14. júlí 2017 að grunnskólar bæjarins yrðu gjaldfrjálsir, þ.e. að Hafnarfjarðarbær útvegaði grunnskólanemendum námsgögn eins og ritföng og stílabækur þeim að kostnaðarlausu. Markmiðið er að draga úr kostnaði foreldra við nám barna sinna, tryggja jafnræði, nýta fjármuni betur og draga úr sóun.  Bæjaryfirvöld fóru af stað í útboð á námsgögnum með stuttum fyrirvara nú skömmu fyrir upphaf þessa skólaárs. Niðurstaða þess var að Penninn/Eymundsson var með lægsta tilboð til Hafnarfjarðar og er um þessar mundir verið að ganga frá kaupum á námsgögnum  fyrir skólaárið 2017-2018. 

Skólar munu því kaupa ritföng sem nemendur þurfa að nota í skólastarfinu. Þannig munu nemendur fá stílabækur, skriffæri, möppur og annað slíkt sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi til viðbótar við námsbækur sem hafa ávallt verið nemendum að kostnaðarlausu. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur taki ritföng með sér heim til að sinna heimanámi en að þeir geti unnið heimanám sitt með eigin ritföngum sem til eru heima (blýantur, strokleður o.s.frv). Utan námsgagnakaupa skólanna eru þá íþrótta- og sundföt nemenda (föt, skór, sundgleraugu þar sem það á við) og skólataska sem áfram verður lagt til af heimilum nemenda. 

Þá er spurning hvað verði um ritföng sem nemendur eiga nú þegar. Gert er ráð fyrir að þau nýtist heima og ef í einhverjum tilvikum að slík gögn gætu nýst skóla (t.d. lítt eða ónotaðar stílabækur) þá bendum við foreldrum á að ræða slíkt við kennara/skóla eftir að skólastarf hefst. 

Þar sem útboð á námsgögnum til grunnskólanna í Hafnarfirði fór frekar seint af stað getur verið að það verði ekki allir hlutir komnir fyrir upphaf skólastarfsins – og snýr það fyrst og fremst að starfsfólki skólanna. Það mun þurfa að aðlaga sig að þeim aðstæðum sem mögulega geta skapast. Þetta er ný framkvæmd á námsgagnakaupum sem á eftir að þróast frekar og verður að líta á haustið 2017 sem upphaf að lengri vegferð.  Því er bent á að skilningur þarf að vera fyrir hendi gagnvart þessum breytingum. Þær taka tíma þar til endanlegum markmiðum okkar er náð. Markmiðið er að lokum að nemendur fái enn betri aðstæður en áður til að sinna námi sínu.  

Það er von okkar að framkvæmdin gangi sem best fyrir sig og skólastarfið farið vel af stað.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is