Dagur gegn einelti - 8. nóvember

7.11.2011

Verkefnisstjórn aðgerða gegn einelti hefur ákveðið að standa að sérstökum degi gegn einelti 8. nóvember 2011. Verkefnisstjórnin samanstendur af fulltrúum fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis og var hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010.

{nl}

Í tilefni dagsins verður undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Forsætisráðherra er verndari átaksins og munu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrita sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ennfremur eru fjöldi félaga og samtaka aðilar að samningnum. Við undirritunina verða einnig afhent gul armbönd sem gerð hafa verið í tilefni dagsins og bera yfirskriftina: Jákvæð samskipti. Þeim verður í kjölfarið dreift til almennings eftir því sem að upplag endist.

{nl}

Einelti spyr ekki um aldur, þjóðfélagshópa eða kyn og það þrífst einfaldlega allsstaðar þar sem það er látið viðgangast. Ábyrgð okkar allra er því mikil og það er í okkar höndum að vinna bug á þessu þjóðfélagsmeini. Það er ekki flókið ef allir taka höndum saman og sannmælast um ákveðna sátt , þjóðarsáttmála um jákvæð samskipti.

{nl}

Í tilefni af baráttudegi gegn einelti þann 8. nóvember verður opnuð heimasíðan www.gegneinelti.is og þar gefst fólki kostur á að undirrita eftirfarandi sáttmála:

{nl}

Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti
Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og allra hópa sem eiga sér hvorki málsvara né sterka rödd. Við munum öll, hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.

{nl}

Verkefnisstjórnin hvetur alla þá fjölmörgu aðila og samtök sem starfa á þeim vettvangi sem átakið nær til, til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember baráttunni gegn einelti. Sérstaklega er þessu beint til leikskóla, grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana. Ýmislegt er að hægt að gera í tilefni dagsins, svo sem að halda upp á hann með táknrænum hætti eða beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu.

{nl}

Verkefnisstjórnin vonast til að sem flestir í samfélaginu skrifi undir þjóðarsáttmálann og taki þátt í því að setja umræðuna um einelti í brennidepil þennan dag - málefnið er brýnt og til mikils að vinna ef í sameiningu tekst að koma á þjóðarsáttmála um jákvæð og uppbyggileg samskipti.

{nl}

Eins og fram kom í síðasta Flórgoða þá verða VERKEFNI DAGSINS Í ÁSLANDSSKÓLA þessi:

{nl}

Hver umsjónarkennari leysir verkefnið með sínum umsjónarbekk þriðjudaginn 8. nóvember 2011. Allir árgangar skólans vinna sama verkefnið. Það felst í því að allir nemendur klippa út 2 hjörtu úr pappír.

{nl}

Annað hjartað er kramið, hnoðað, kuðlað og trampað á því – bannað að rífa það. Síðan eiga nemendur að prófa að slétta úr krumpunum en fyrst og síðast virða fyrir sér hvað hafði gerst fyrir pappírinn. Í kjölfarið stýrir kennari umræðu sem byggir á punktum eins og afsökunarbeiðni, varanlegar skemmdir og aðra þætti sem fylgja einelti.

{nl}

Hitt hjartað sem klippt er út setja nemendur á bakið á sér. Bekkjarfélagar eiga síðan að skrifa hrós eða eitthvað jákvætt um viðkomandi á hjartað. Allir skrifa á bakið hjá öllum. Í lok tímans eru hjörtun tekin af bakinu og nemendur lesa fyrir samnemendur brot af því sem stendur í þeirra hjarta.

{nl}

Armbönd
Stefnt er að því að nemendur og starfsmenn Áslandsskóla fá sérstök armbönd í lok dagsins. Armböndin bera yfirskriftina JÁKVÆÐ SAMSKIPTI. Vonandi ná þau í skólann í tæka tíð.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is