Árangursstjórnun í Áslandsskóla

28.5.2008

Sunnudaginn 1. júní 2008 kl. 10:30, á 100 ára afmælisdegi Hafnarfjarðarbæjar, undirrituðu Leifur S. Garðarsson skólastjóri og Lúðvík Geirsson bæjarstjóri árangursstjórnunarsamning í ráðhúsi bæjarins. Árangursstjórnun hefur verið í innleiðingu í ýmsum stofnunum og sviðum bæjarins undanfarið en undirritaður tók strax þá ákvörðun að bíða og sjá framvindu málsins áður en vaðið væri út í slíka vinnu.
Í árangursstjórnun bæjarins felst skýr tenging allt frá framtíðarsýn, stefnu og áherslum yfirstjórnar bæjarins, yfir í hlutverk stofnunar, markmið hennar og þá mælikvarða sem notaðir eru til að mæla hvort markmiðin nást. Samningar við einstakar stofnanir eru rammasamningar sem útfærðir eru nánar í árlegum starfsáætlunum stofnana.
Tilgangurinn með innleiðingu samninga um árangursstjórnun hjá Hafnarfjarðarbæ er meðal annars að styðja við framtíðarsýn, stefnu og megináherslur bæjarins, festa í sessi árangursríkar stjórnunaraðferðir og auka sjálfstæði og ábyrgð stofnana í rekstri og innra starfi. Auk þess að leggja grunn að markvissari samskiptum, áætlanagerð og mati á árangri af starfsemi Hafnarfjarðarkaupstaðar og efla ennfremur metnað og vilja starfsmanna til að ná árangri í starfi og gera hann sýnilegan. Þannig leitist einstakar stofnanir við að taka stöðugum framförum og vera ávallt í fremstu röð.
Ávinningur árangursstjórnunar er fjölþættur. Lokatakmarkið er meðal annars gott og öflugt samfélag, með meiri starfsánægju starfsmanna bæjarins og betri þjónusta þeirra við íbúa og sem best nýting fjármuna sem íbúar leggja bænum til í formi skatta og þjónustugjalda.

Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is