Páskakveðja og þakkir

3.4.2020

Kæru foreldrar

Hjálagt með þessu skeyti er bréf frá fræðslustjóra og bréf frá stoðþjónustu sveitarfélagsins.

Skólastarfið eftir páska verður með sama fyrirkomulagi og verið hefur. Við komum aftur til starfa þriðjudaginn 14. apríl samkvæmt þeim tímasetningum sem hafa verið í gildi. Það er mikilvægt að nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans nái að hvílast vel um páska, rækti samband við sína nánustu, hvort sem það er hægt í nálægð eða með rafrænum hætti. Munum að vera dugleg að hreyfa okkur, hugsa jákvætt og brosa breitt en blítt.

Það er mikilvægt í árferði eins og nú er að temja sér jákvæðni. Jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir eru valkvæðar. Við veljum á degi hverjum, hverjum klukkutíma, hverri mínútu hvernig við hugsum um lífið og tilveruna. Við sjálf höfum áhrif hvaða orku við setjum í hugsanir okkar. Við þurfum að vanda okkur því allt sem við hugsum vex og þar af leiðandi muna það móta líf okkar og tilveru. Við höfum sem sagt val um að fylla líf okkar af jákvæðni, gleði og hamingju.

Hjartans kveðjur og þakkir til nemenda. Nemendur hafa staðið sig frábærlega, sýnt einstaka aðlögunarhæfni, sýnt ábyrgð í námi og ástundun og það sem er svo mikilvægt er að þau hafa ekki týnt gleðinni, því bros mætir manni á morgni hverjum.

Hjartans þakkir einnig til foreldra fyrir góðan stuðning og þá endurgjöf sem við höfum fengið. Hún er okkur mikilvæg og hvetur fólk til dáða.

Fyrir fáeinum dögum var nýju lesverkefni hleypt af stokkunum, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður. Enginn veit betur en þið hversu óvenjulegar aðstæðurnar eru og við þessar aðstæður er þörfin fyrir leshvatningu brýn. Það er mín von, að verkefnið styðji við gott samstarf heimilis og skóla og stuðli að auknum lesáhuga barna og fullorðinna.

Nýja lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Heitið er dregið af aðstæðunum, þar sem margir hafa meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Árangurinn er mældur í tíma, þar sem fólk er hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Nánar á vefsíðunni okkar www.aslandsskoli.is

Ég vil að lokum senda öllu skólasamfélaginu í Áslandsskóla allra bestu páskakveðjur.

Leifur S. Garðarsson
Skólastjóri Áslandsskóla


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is