Skólastarf í kjölfarið á nýjum sóttvarnarreglum

2.11.2020

NÝJAR SÓTTVARNARREGLUR

Þriðjudaginn 3. nóvember 2020 taka gildi nýjar sóttvarnarreglur og ná þær til 17. nóvember nk. Að sumu leyti eru sóttvarnarfyrirmæli flóknari nú en áður og krefjast meira af nemendum og skólunum en áður.

Skólastjórnendur hafa um helgina undirbúið breytingar og starfsfólk skóla notaði daginn í dag til þess að skipuleggja sig fyrir næstu vikur. Meginmarkmiðið er að halda úti sem mestu og bestu skólastarfi miðað við þær sóttvarnarkröfur sem gerðar eru. Þó er óhjákvæmilegt annað en að breytingarnar muni hafa áhrif á skóladaginn hjá öllum nemendum á einhvern hátt.


NÁM OG KENNSLA

Kennsla fer fram í heima-/umsjónarstofum næstu tvær vikurnar. Sund- og íþróttakennsla fer ekki fram í sundlaug eða íþróttahúsum og engin kennsla fer fram í list- og verkgreinastofum.

Nemendur á sama aldri í grunnskólum Hafnarfjarðar munu fá jafnmikla kennslu umræddan tíma.

Áslandsskóli hefur nú fjögur hólf.

Blátt hólf þar sem eru nemendur og starfsfólk unglingastigs.

Rautt hólf þar sem eru nemendur og starfsfólk miðstigs.

Grænt hólf þar sem eru nemendur og starfsfólk yngsta stigs.

Gult hólf sem er stjórnendahólf og mötuneyti.


Yngsta stig / 1.-4. bekkur

Nemendur í 1.-4. bekk (yngsta stig) fá fullan skóladag en sú kennsla mun eingöngu fara fram í skólastofum umsjónarbekkja. Nemendum er skipt í kennsluhólf sem í geta verið allt að 50 nemendur (tveir bekkir) og innan þess geta allt að 10 fullorðnir verið. Kennsla verður 6 kennslustundir á dag eða fram að því að nemendur fara í frístundaheimili hjá þeim sem þegar eru þar skráðir en aðrir nemendur fara heim.

Starfsemi frístundarheimilisins Tröllaheima verður í umsjónarstofu skráðra nemenda en ekki í húsnæði frístundaheimilisins meðan á þessum aðgerðum stendur. Fullur opnunartími er í frístundaheimili eða til kl. 17:00 hvern virkan skóladag.

Nemendur fara út í frímínútur eftir kennsluhólfum en blandast ekki öðrum nemendum þar úr öðrum kennsluhólfum.

Nemendur á yngsta stigi hafa ekki grímur í skólanum en starfsfólk hefur grímur á göngum og mögulega einnig í kennslustundum ef ekki er hægt að koma við 2ja metra reglu milli fullorðinna.

Tímasetningar sem mikilvægt er að hafa í huga er varða yngsta stig:

Kl. 8.00 Skólinn opnar – inngangur í yngri deild, nemendur fara ekki í raðir heldur ganga beint inn í sína heimastofu.

Kl. 8.10 Kennsla hefst í 1.-4, bekk

Kl. 13.10 Kennslu lýkur í 1.-4. bekk, nemendur halda heim á leið eða í frístundaheimili


Miðstig & unglingastig / 5.-10. bekkur

Í 5.-10. bekk koma nemendur í styttri skóladag að morgni og fram að/yfir hádegismat eða 4 kennslustundir á dag. Hver bekkur (að 25 nemendur) er sérstakt kennsluhólf og blandast ekki nemendum annarra bekkja. Nemendur fara ekki út í frímínútur og verða í stofum sínum allan skólatímann og halda síðan beint heim. Nemendur mega búast við auknu námi heima sökum styttingar á daglegri kennslu í skóla. Þar sem EKKI er hægt að halda 2ja metra fjarlægðarreglu í kennslustofum þurfa ALLIR nemendur í 5.-10.bekk að vera með grímur í skólanum allan skóladaginn, bæði á göngum skólans og í kennslustundum. Starfsfólk skóla skal vera með grímur á göngum og í kennslustofum ef það getur ekki haldið 2ja metra fjarlægð. Skólar útvega þeim grímur sem ekki koma með grímur að heiman. Grímur verða í anddyri innganga sem þau munu ganga um en nemendum er einnig velkomið að koma með sínar eigin grímur.

Mikilvægt er að nemendur á mið- og unglingastigi hafi spjaldtölvu(Ipad) meðferðis í skólann og að spjaldtölvan sé fullhlaðin.

Tímasetningar sem mikilvægt er að hafa í huga er varða miðstig, 5.-7. bekk:

Kl. 8.20 Skólinn opnar – inngangur í miðrými, nemendur fara ekki í raðir heldur ganga beint inn í sína heimastofu, eða stofu sem bekknum hefur verið úthlutað.

Kl. 8.30 Kennsla hefst í 5.-7. bekk.

Kl. 11.30 Kennslu lýkur í 5.-7. bekk, nemendur matast í stofu og halda síðan heim á leið.

Tímasetningar sem mikilvægt er að hafa í huga er varða unglingastig, 8.-10. bekk:

Kl. 8.40 Skólinn opnar – inngangur í unglingadeild, nemendur fara ekki í raðir heldur ganga beint inn í sína heimastofu, eða stofu sem bekknum hefur verið úthlutað.

Kl. 8.50 Kennsla hefst í 8.-10. bekk.

Kl. 11.50 Kennslu lýkur í 8.-10. bekk, nemendur matast í stofu og halda síðan heim á leið.


MATARMÁL

Matarþjónusta ALLRA nemenda mun vera með nokkuð hefðbundnu sniði. Þeir nemendur sem eru í áskrift að ávöxtum í 1.-7. bekk og hádegismat í 1.-10. bekk í nóvember munu fá matinn sinn í samræmi við áskrift.

Nemendur matast í heimastofu og fá matinn afhentan þangað. Hafragrautur að morgni og sala á síðdegishressingu fyrir nemendur í 5.-10. bekk fellur niður þessar tvær vikur en síðdegishressing í frístundaheimili er óbreytt. Áfram er hægt að koma með nesti í skólann.

Við hvetjum alla nemendur til þess að koma með sinn vatnsbrúsa í skólann, hafa hann í skólatöskunni, til þess að fá sér vatn að drekka með matnum.


FORRÁÐAMENN OG SKÓLINN

Forráðamenn eiga ekki að koma inn í skóla nema í undantekningartilvikum, þ.e. ef skóli kallar á foreldra vegna veikinda eða að annarra sérstakra aðstæðna hjá börnum þeirra. Forráðamenn sem fylgja börnum sínum í skólann og sækja skulu sleppa þeim og taka á móti þeim við útidyr og ekki fara inn í skóla hvernig sem veðurfari er háttað.


VEIKINDI OG LEYFI

Nemendur skulu sækja skóla með hefðbundnum hætti og fjarvistir frá skóla eru háðar tilkynningum frá foreldum (leyfi og veikindi). Skólasóknarreglur grunnskóla Hafnarfjarðar gilda.


FÉLAGSMIÐSTÖÐVAR

Starfsemi félagsmiðstöðva mun alfarið færast í rafrænt form.


SKÓLAÞJÓNUSTA

Greiningar sál-/talmeinafræðinga (skólaþjónusta) mun áfram verða til staðar undir ströngum sóttvarnareglum en öll ráðgjöf til skóla/foreldra frá ytri ráðgjöfum mun verða í gegnum fjarfundabúnað. Kennsla nemenda í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar mun falla niður í grunnskólunum.


KÆRU FORRÁÐAMENN / KÆRU NEMENDUR

Sóttvarnaraðgerðirnar breyta aðeins skólamyndinni okkar, bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Það er mikilvægt að við sýnum þolinmæði gagnvart breytingum á starfseminni sem munu eiga sér stað, bæði styttingu skóladags hjá hluta nemenda og takmarkandi kennslustarfs undir þessum kringumstæðum. Nemendur og starfsfólk Áslandsskóla hafa fyrr á þessu almanaksári sýnt frábæra aðlögunarhæfni, stundað nám og kennslu samviskusamlega við krefjandi aðstæður. Nú stöndum við frammi fyrir næsta verkefni. Vænlegast er að mæta því verkefni af samviskusemi, jákvæðni, alúð og yfirvegun.

Ég hvet forráðamenn til þess að vera í góðum samskiptum við umsjónarkennara. Munum að hrósa og hvetja um leið og okkur er mikilvægt að taka á móti góðum ráðum og ábendingum úr nærsamfélaginu okkar.

Með bestu óskum og kveðjum
Leifur S. Garðarsson

Skólastjóri Áslandsskóla


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is