Starfsfólk Áslandsskóla hleypur til styrktar Íþróttafélaginu Firði. Áfram Áslandsskóli! Áfram Fjörður!

19.8.2016

Allt frá árinu 2007 hefur starfsfólk Áslandsskóla í Hafnarfirði tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni og mun hópur frá skólanum hlaupa til góðs í ár líkt og undanfarin ár. Þrjátíu og tveir starfsmenn hafa skráð sig til leiks og munu ýmist hlaupa 10 kílómetra eða hálft maraþon til styrktar Íþróttafélaginu Firði. 

Sú heilsusamlega hefð hefur skapast meðal starfsmanna Áslandsskóla í Hafnarfirði að hlaupa saman í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og er það starfsmönnum sjálfum í sjálfsvald sett hvaða vegalengd er hlaupin hverju sinni. Þannig hefur hópurinn hlaupið allt frá 10 kílómetrum upp í heilt maraþon. Þátttakan hefur mikið skemmtigildi fyrir starfsmenn og líka keppnisgildi þar sem í hópnum leynast starfsmenn sem vilja toppa sig á milli ára. Aðrir hlaupa til að vera með, ná persónulegum sigrum og leggja áherslu á að njóta en ekki þjóta. Þátttaka í hlaupi hefur hin síðustu ár haft þær ánægjulegu afleiðingar að starfsmenn hittast utan vinnu til æfinga og hefur nokkuð stór hópur verið að hlaupa annað hvort með hlaupahópi FH eða Hauka í Hafnarfirði. Þátttaka í samhlaupi Áslandsskóla hefur farið stigvaxandi á milli ára.   

Öllum hlaupurum í Reykjavíkurmaraþoni gefst kostur á að hlaupa til styrktar góðu málefni. Starfsfólk Áslandsskóla hleypur til styrktar Íþróttafélaginu Firði í Hafnarfirði og hefur gert undanfarin ár.  Íþróttafélagið Fjörður var stofnað í júní 1992 og sinnir þörfum þeirra sem eru andlega og/eða líkamlega fatlaðir.  Hjá Firði fá einstaklingar á öllum aldri tækifæri til að koma saman og iðka skemmtilegar íþróttir í góðum félagsskap.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is