Skólabragur, ýmsir fastir þættir í skólastarfinu.

Skólasetning

Skólasetning er fyrsti dagur nemenda að hausti. Nemendur koma á sal þar sem skólastjóri býður nemendur velkomna. Foreldrar koma gjarnan með. Eftir það fara nemendur í stofur með sínum umsjónarkennurum og fá afhent ýmis gögn t.d. stundatöflu, innkaupalista, lotuskiptingar og mataráskriftarblöð. Skólasetning er sveigjanlegur dagur.

Skólaslit

Á skólaslitadegi mæta árgangar saman á sal, einn árgangur í einu. Síðan fara nemendur í sínar kennslustofur og fá afhent vitnisburðarblað, foreldrar koma gjarnan með.

Formleg skólaslit fara fram á sal á skólaslitadegi kl. 12:00 að viðstöddum nemendum í 10. bekk, foreldrum þeirra, starfsfólki skólans og gestum. Foreldrar nemenda í 10. bekk og skólinn sjá um veitingar á skólaslitum 10. bekkja.

Nemendur fá ekki athentan vitnisburð ef þeir eiga eftir að skila einhverjum bókum á bókasafn skólans.   ...

Morgunstund

Nemendur hittast í sal skólans í  sameiginlegri morgunstund. Hver deild kemur saman vikulega en allir nemendur skólans u.þ.b. mánaðarlega, þá eru veittar viðurkenningar fyrir jákvæða hegðun, rætt um málefni líðandi stundar og sýnd atriði frá öllum deildum.

Einn heimur hefur umsjón með morgunstund hverju sinni. Morgunstund hefst með því að kveikt er á kertum fyrir hornstoðir skólans og farið er með skólaheitið en lýkur með skólasöng Áslandsskóla. Í morgunstundum fá nemendur, starfsfólk og foreldrar tækifæri til að hittast, sýna og sjá verk sem unnin eru. Morgunstundir eru góður vettvangur til að læra að bera virðingu fyrir öðrum, hlusta og koma fram. Forráðamenn eru ávallt velkomnir á morgunstund.

Umsjónarkennari ber ábyrgð á morgunstund bekkjar síns og skipuleggur hana í samvinnu við nemendur. Gæta skal að því að allir nemendur gegni hlutverki á morgunstund. Innihald morgunstundar skal vera í tengslum við dygð mánaðarins og rifja skal upp a.m.k. eina SMT reglu. Morgunstundir eru alltaf skemmtilegar en tilgangur þeirra er að vera með vandaðan og vel undirbúinn flutning á efni sem tengist dygðunum. Atriði á morgunstund geta verið margvísleg t.d. leikrit, söngur, sögulestur, ljóðalestur, dans, kvikmynd, skyggnusýning og kynning á vinnu nemenda.

Söngur á sal

Í síðustu viku fyrir jól er sameiginleg jólasöngstund á sal skólans fyrir alla nemendur.

Einnig eru sameiginlegar söngstundir nokkru sinnum yfir skólaárið á sal skólans.

Ratleikur

Ratleikur er haldinn 1. desember ár hvert. Þá er nemendum skipt í hópa og farið í ratleik í nágrenni skólans. Nemendur fá heitt kakó að ratleik loknum. Íþróttakennarar sjá um að skipuleggja. Sveigjanlegur dagur.

Útileikjadagur og íþróttadagur

Útileikjadagur er haldinn í byrjun september. Nemendur fara í ýmsa leiki á Ásvöllum eða á skólalóð. Sveigjanlegur dagur.

 

Íþróttadagur er haldinn á Ásvöllum að vori fyrir nemendur í 1. - 6. bekk. Nemendur í 7. - 10. bekk fara í fjallgöngu. Sveigjanlegur dagur. Íþróttakennarar sjá um að skipuleggja báða dagana.

Vettvangsferðir – fastir liðir

Vettvangsferðir eru stór hluti af námi barna í Áslandsskóla. Kennarar eru hvattir til að nýta hið stórbrotna umhverfi skólans og það sem Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða.

Einnig hafa skapast nokkrar hefðir fyrir vettvangsferðum sem reynt er að halda í:

1. bekkur. Jólaferð á Árbæjarsafn

6. bekkur. Vinnudagur í Húsdýragarðinum.

7. bekkur. Skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði.

9. bekkur. Skólabúðir á Laugum í Sælingsdal.

10. bekkur. Útskriftarferð að vori.

Ef kennarar þurfa aðstoð í ferðum þarf að óska eftir henni hjá aðstoðarskólastjóra með góðum fyrirvara. Aðstoðarskólastjóri sér einnig um að panta skólaakstur.

Kennarar hafa aðgang að strætókorti fyrir bekki.

Upplestrarkeppnin

Upplestarkeppnin er sett á degi íslenskrar tungu en nemendur í 7. bekk taka þátt í henni. Hún hefst formlega á sal þar sem sigurvegarar skólans frá síðasta ári lesa upp. Umsjónarkennarar undirbúa nemendur markvisst og eru ýmsir viðburðir skipulagðir í kringum það s.s. upplestur á Hrafnistu og leikskólum. Keppni er haldin innan skólans þar sem allir nemendur í 7. bekk taka þátt. Tíu nemendur komast áfram í lokakeppni skólans. Tveir þeirra keppa fyrir hönd skólans í lokakeppni sem fer fram í Hafnarborg.

Einnig hefur skapast sú hefð að Litla upplestrarkeppnin er í 4. bekk.  Hún er með svipuð sniði og sú í 7. bekk en mun minni í sniðum.  Þetta er liður í undirbúningi fyrir Stóru upplestrarkeppnina.

Dagur íslenskrar tungu

Þann 16. nóvember ár hvert er haldinn hátíðlegur Dagur íslenskrar tungu sem er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar. Íslenskukennarar skipleggja fyrir sinn bekk/árgang eitthvað í tilefni dagsins.

Setning Stóru Upplestarkeppninnar er á degi íslenskrar tungu og nemendur í 7. bekk taka þátt í henni.

Aðventan og  jólahald

Jólaskreytingardagur

Jólaskreytingardagur er í byrjun desember. Fyrstu fjórar kennslustundirnar eru notaðar til að skreyta skólann. Það sem eftir er dagsins er hefðbundin kennsla.

Hver gerir hvað í jólaundirbúningnum?

4. bekkur aðstoðar umsjónarmann fasteigna við að setja upp jólatré og skreyta það á sal skólans.

5. bekkur sýnir helgileik. Æfingar fara að mestu fram eftir skólatíma.

6. bekkur aðstoðar leikskólabörn á Tjarnarási á jólaballi þeirra sem er haldið á sal skólans. Í því felst að sækja börnin í leikskólann, vera með þeim á jólaballi og fylgja aftur til baka.

7. bekkur skreytir salinn.

Jólahefðir

·         Nemendur og starfsfólk styrkja Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjaðrar. Hver nemandi kemur með peningaupphæð í umslagi og er upphæðin afhent á síðasta jólaballi. Kemur þetta í stað hefðbundinna pakkaskipta.

·         1. - 4. bekkur gerir jólagjöf handa forráðamönnum.

·         1. bekkur fer á jólasýningu hjá Árbæjarsafni. Athugið að það þarf að panta í byrjun september.

·         Kaffihúsaferð, margir árgangar fara í bæjarferð í kringum jólin.

Jólamorgunstundir

Í síðustu viku fyrir jól eru sérstakar jólamorgunstundir hjá árgöngum. Þá er helgileikur sýndur. Allir bekkir og/eða árgangur koma með eitt atriði. Gæta þarf þess að hafa atriði ekki of löng. Forráðamenn velkomnir.

Í síðustu viku fyrir jól er sameiginleg jólasöngstund á sal skólans fyrir alla nemendur.

Stofujól

Bekkir eiga samverustund í stofum. Nemendur mega koma með “sparinesti” (sætabrauð og snakk) og gos. Þetta er eina skiptið sem gos er leyft í skólanum.

Jólaball

Í 1. - 6. bekk er jólaball á sal ýmist á undan eða eftir stofujólum. Þar er sungið og gengið kringum jólatréð.

Í 7. bekk er jólaball seinnipart dags.

Í 8. - 10. bekk er jólaball að kvöldi í samstarfi við félagsmiðstöðina Ásinn.

Öskudagur

Sveigjanlegur dagur frá kl. 8:10 – 12:10. Skipulögð er sérstök dagskrá í skólanum þar sem nemendur og starfsfólk koma gjarnan í búningum í tilefni dagsins.

Menningardagar

Menningardagar eru haldnir á vorönn. Þá er sveiganlegt skólastarf. Nemendum er ýmist skipt upp í hópa innan árgangs eða deilda og unnið að verkefnum sem tengjast þema daganna. Menningardögum lýkur með opnu húsi þar sem vinna vetrarins og menningardaga er til sýnis. Atriði nemenda eru sýnd á sal, stofur opnar og starfrækt er kaffihús á vegum 10. bekkjar.

Allir í skólasamfélaginu nær og fjær velkomnir.

Árshátíð nemenda

Á vorönn er haldin árshátíð nemenda í unglingadeild í samvinnu við Ásinn. Nemendaráð sér að mestu um skipulagningu. Foreldrar hjálpa til við að bera mat á borð og aðstoða í eldhúsi. Nemendum unglingadeildar eru veittar hinar ýmsu viðurkenningar  sem þeir hafa áður kosið s.s. kóngur, drottning, best klæddi og besta brosið. Starfsfólki unglingadeildar er boðið á árshátíðina.

 

Félagsstarf nemenda, Ásinn

Félagsmiðstöðin Ásinn var opnuð í október 2003 og hefur aukið starfsemi sína jafnt og þétt í gegnum árin. Félagsmiðstöðin sinnir fyrst og fremst unglingum í 8.-10. bekkjum skólans en einnig er opið fyrir  5.- 6. bekki og 7. bekki. Ásinn er starfrækur í Áslandsskóla og hefur hann aðsetur á gangi unglingadeildar.

Forstöðumaður sér um aðalrekstur og utanumhald félagsmiðstöðvarinnar en einnig er starfandi verkefnastjóri í Ásnum sem og frístundaleiðbeinendur. Aðalmarkmið félagsmiðstöðvarinnar er að ná til barna og allra unglinga á aldrinum 10 – 16 ára en þó sérstaklega þeirra sem ekki njóta sín í öðru íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Ásinn er forystufélagsmiðstöð í íþrótta- og heilsueflingu og er markmiðið að bæta heilsu og aðgang að íþróttum og heilsurækt ungmenna sem og mataræði og hollustu í fæðu.

Símanúmer Ásins er 585-4611 



Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is