Starfsmannastefna

Starfsmannastefna

Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar (Jafnréttisstefna Hafnarfjarðarbæjar 2007 – 2011).

Markmið:

Að tryggja að konur og karlar njóti jafnréttis á vinnustöðum Hafnarfjarðarbæjar.

Leiðir:

1. Í öllum auglýsingum á vegum stofnana og fyrirtækja Hafnarfjarðarbæjar skal gæta jafnréttis kynjanna sbr. 18. gr. jafnréttislaga. Atvinnuauglýsingar skulu að jafnaði vera kynhlutlausar, en sé um að ræða störf þar sem hallar á annað kynið skal vekja athygli á því markmiði jafnréttisstefnunnar að jafna kynjaskiptingu innan starfsgreinar.

2. Öll störf hjá Hafnarfjarðarbæ ber að auglýsa, nema um tímabundnar ráðningar eða tilfærslu í starfi sé að ræða. Við tilfærslu í starfi skal að öllu jöfnu auglýsa stöðuna innanhúss. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður hjá Hafnarfjarðarbæ. Umsækjandi af því kyni sem er í minnhluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu þegar hann er jafnhæfur eða hæfari.

3. Konur og karlar skulu njóta sambærilegra kjara og réttinda. Greiða skal konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Hæfnis- og árangurslaun og aðrar ákvarðanir sem hafa áhrif á kjör skulu byggjast á málefnalegum forsendum, óháð kyni. Hafnarfjarðarbær telur að launaleynd sé ein af uppsprettum kynbundins launamunar og að henni beri því að útrýma hvar sem hún kann að vera til staðar.

4. Vinnuaðstæður skulu taka mið af þörfum beggja kynja. Við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum og uppsagnir skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Starfsþróun og símenntun skal nýta til aukins jafnréttis kynja á vinnustað.

5. Hafnarfjarðarbær vill nýta kosti sveigjanleika á vinnustað til að auðvelda starfsfólki að samræma einkalíf, fjölskylduábyrgð og starf og stjórnendum að mæta breytilegum þörfum starfseminnar. Starfsfólk skal eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri hagræðingu vinnutíma eða vinnuskipulags þar sem því verður við komið og hentað getur bæði starfsmanni og starfsemi.

6. Kynferðisleg áreitni er með öllu óheimil á vinnustöðum bæjarins. Vísað er til 17.gr. jafnréttislaga um skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Sé yfirmanni eða trúnaðarmanni gert viðvart um slíka hegðun ber viðkomandi, í samráði við forstöðumann að binda endi á hana. Þolandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni. Alvarleg eða endurtekin áreitni varðar áminningu eða brottrekstri úr starfi.


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is