Eineltisáætlun Áslandsskóla

 Aðgerðaráætlun í eineltismálum

Starf Áslandsskóla tekur mið af agakerfinu SMT (School management training) og mikil áhersla er lögð á samvinnu, ábyrgð, tillitsemi og traust. Áslandsskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju. Skólinn hefur skýrar reglur og vinnuferli um hvernig tekið er á einelti.

Aðgerðaáætlun í eineltismálum Áslandsskóla: Tengill inn á verkferil

 Það er markmið Áslandsskóla að halda uppi  virku forvarnarstarfi gegn einelti.

·        Á hverri önn fer námsráðgjafi og skólasálfræðingur inn í alla bekki og kynnir stefnu skólans í eineltismálum, nemendur eru upplýstir um hvert þeir geta leitað eftir aðstoð.

·        Lögð er fyrir tengslakönnun í öllum bekkjum á hverju hausti og könnun um líðan á hverju vori. Einnig er Skólapúlsinn lagður fyrir úrtak nemenda  6. – 10. bekkja frá september - maí.

·        Fræðsluefni, fyrirlestrar og myndbönd um afleiðingar eineltis er liður í lífsleiknikennslu sem kennd er í öllumárgöngum skólans.

Einelti er ekki liðið undir neinum kringumstæðum og er litið á það sem alvarlegt brot á skólareglum.
Starfsfólk skólans berst gegn einelti með öllum tiltækum ráðum.  Til þess að árangur náist er nauðsynlegt að góð samvinna sé  á milli allra sem hlut eiga að máli.  Starfsfólk skólans, foreldrar og nemendur þurfa að standa þétt saman um að uppræta einelti. Mikilvægt þykir að allir þeir sem vitneskju hafa um eineltismál  tilkynni það til skólans svo hægt sé að vinna markvisst að því að stöðva eineltið.

Æskilegt er að vitneskja um einelti berist fyrst til umsjónarkennara. Einnig er hægt að hafa samband við nemendaverndarráð skólans eða stjórnendur. Eineltismál eru mismunandi og fer vinna hvers máls eftir eðli þess.

Þegar grunur um einelti vaknar skal fylgja eftirfarandi ferli:

Öll eineltismál, grun eða staðfestingu, skal skrá á sérstakt eyðublað. Umsjónarkennari ber ábyrgð á skráningu og lætur afrit til námsráðgjafa sem heldur utan um allar skráningar. Skráning er liður í að hafa yfirsýn yfir eðli og umfang eineltismála í skólanum.

Tilkynna til umsjónarkennara / námsráðgjafa tengill inn á tilkynningu

Umsjónarkennari / námsráðgjafi vinna skv vinnuferli 1

 

Rökstuddur grunur um einelti

Unnið samkvæmt vinnuferli 2

Ef ekki tekst að leysa eineltismál í skólanum er málið sent til Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar til frekari meðferðar.

 Rjúfum þögnina og stöndum saman í því að vinna bug á einelti

Einelti er áreiti af því tagi að ofbeldi beinist að einni manneskju í lengri eða skemmri tíma. Orðið einelti er yfirleitt notað um endurtekið atferli. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og finnur til varnarleysis.

Einelti birtist í mörgum myndum og það getur t.d. verið:

Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar eða skemmdarverk.

Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni.

Skriflegt/rafrænt: tölvuskeyti, smá skilaboð, krot, bréfasendingar.

Óyrt: bendingar, augngotur, háðsglott, merkjasendingar, niðrandi tákn.

Óbeint: baktal, útskúfun, eða útilokun úr félagahóp.

Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær skemmdar.

Andlegt: þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

Einelti gerist oftast þar sem enginn sér og getur því farið framhjá þeim fullorðnu ef enginn segir frá.

Einelti gerir ekki mannamun. Allir geta orðið fyrir því og áríðandi er að allir þekki einkenni eineltis.

 

Hugsanlegar vísbendingar um að barn sé lagt í einelti

Tilfinningalegar

  • Breytingar á skapi.
  • Tíður grátur, viðkvæmni.
  • Svefntruflanir, fær martraðir.
  • Breyttar matarvenjur, lystarleysi.
  • Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði.
  • Depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir.

Líkamlegar

  • Líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur, sérstaklega á morgnana.
  • Barnið verður niðurdregið eða órólegt á sunnudagskvöldum eða síðasta kvöldið í skólaleyfi.
  • Kvíðaeinkenni t.d. nagar neglur, stamar, kækir ýmis konar.
  • Rifin föt og/eða skemmdar eigur.
  • Líkamlegir áverkar s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýrt.

Félagslegar

  • Barnið virðist einangrað og einmana.
  • Barnið fer ekki í og fær ekki heimsóknir.
  • Barnið á fáa eða engi vini og vill ekki taka þátt í félagsstörfum.

Hegðun

  • Óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst
  • Barnið neitar að segja frá hvað amar að því
  • Árásargirni og erfið hegðun

Í skóla

  • Barnið hræðist að fara eitt í skóla og úr skóla, biður um fylgd eða fer aðra leið
  • Leggur fyrr af stað í skólann en venjulega eða fer seinna af stað
  • Byrjar að skrópa
  • Barnið mætir iðulega of seint
  • Barnið forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
  • Barnið hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar
  • Einangrar sig frá skólafélögum

Á heimili

  • Barnið neitar að fara í skólann
  • Einangrar sig frá öðrum í fjölskyldunni
  • Biður um auka vasapening
  • Týnir peningum og/eða öðrum eigum
  • Neitar að leika sér úti eftir skóla
  • Barnið byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti
  • Reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélagana eða aðra foreldra

Verði foreldrar eða starfsmenn varir við einhver ofangreindra einkenna eða önnur sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið.

 Hvað geta foreldrar gert þegar barnið þeirra er þolandi:

  • Hlustað vel á barnið
  • Brugðist við vanda barnsins með skilningi, þolinmæði og umhyggju
  • Látið barnið finna að það á ekki sök á eineltinu
  • Haft samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa og /eða stjórnendur skólans.

 

 Hvað geta foreldrar gert þegar þeirra barn er gerandi?

  • Haft samband við skólann en þar er hægt að setja í gang viðeigandi aðgerðir.
  • Reiði og skammir duga skammt.  Árangursríkara er að setjast niður og ræða málin.  Skýra þarf út fyrir barninu að það er alveg ólíðandi að særa aðra, bæði líkamlega og andlega.
  • Gefið skýr skilaboð um að einelti sé alvarlegt mál og barnið eigi að hætta því.
  • Gott er að fá barnið til að setja sig í spor þolenda og ímynda sér hvernig þeim líður því þannig eflum við samkennd barnsins með öðrum.
  • Skoðað eigin hegðun og hegðun annarra í fjölskyldunni.
  • Fylgst vel með hvernig barnið ver frítíma sínum og með hverjum.

 Það er mikilvægt að barnið viti að foreldrarnir eru í sambandi við kennarann og fylgjast með framvindu málsins. Mikilvægt er að muna eftir að hrósa barninu ef vel gengur.

 

 Netnotkun - gaman og/eða alvara

Við viljum leggja mikla áherslu á að foreldrar fylgist með hvað börnin þeirra aðhafast á netinu.  Aukning er í því að nota netið sem tæki til þess að leggja í einelti. Með því er einnig verið að rjúfa friðhelgi heimilisins og griðarstað þeirra sem fyrir eineltinu verða.


Gott er einnig í þessu samhengi að skoða síðuna: http://www.saft.is/  sem er heimasíða samtaka foreldra um ábyrga tölvunotkun.
 
Einnig er þörf að benda á áhættur samskipta á facebook, twitter, Snapchat, Instagram og mörgum öðrum samskiptasíðum.  Að auki þá er að verða æ algengara að fullorðnir einstaklingar reyna að vinna sér traust barna með því að koma sér inn í vinahópa á netinu og finna þar einstakling sem er viðkvæmur fyrir,  byggja upp samband og um leið traust með því að vera í stöðugu sambandi við barnið á netinu.
Það er mikilvægt að foreldrar séu á þessum samfélagsmiðlum svo að þeir geri sér grein og geti fylgst með samskiptum barna sinna á netinu.

Ef grunur vaknar um einelti skal fylgja þessu ferli
Tilkynning  vegna gruns um einelti


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is