Bætum umferðarmenningu við skólann

Mikilvægt að fara varlega

11.1.2019

Kæru foreldrar

 

Eins og ykkur er kunnugt er mikið myrkur nú í skammdeginu.

Einhverjir vilja meina að það vanti snjó til að lýsa upp, en eflaust ólíkar skoðanir á löngun í snjóinn blessaðan.

Lýsing á skólalóð var yfirfarin á haustdögum og búið að laga það sem laga þurfti, sem var ekki mikið.

Það sem er mesta áhyggjuefnið og svo sem ekki nýtt af nálinni er umferðarmenningin fyrir framan skólann.

Þar fara ökumenn því miður ekki alltaf gætilega og hægt að gera miklu betur.

Nú þekkjum við að það þarf ekki marga til svo menningin verði ekki góð, en það þarf heldur ekki marga til svo að slys kunni að verða.

Nú er veðurfarið búið að vera þannig að upplagt er fyrir börn að koma gangandi í skólann en ef börnum er ekið í skólann eykst umferð í kringum skólasvæði. Ef þeim er ekið er nauðsynlegt að gæta vel að því hvar barni er hleypt út úr bílnum því má ekki stoppa þar sem hætta getur skapast fyrir barnið eða önnur börn. Alltaf skal hleypt út þeim megin sem gangstéttin er, aldrei út á akbraut.

Við skulum líka hafa í huga að á bílastæði við Áslandsskóla er einstefna.  Einungis hægt að keyra inn af Kríuási og út á Þrastarás.  Óheimilt er að keyra út af stæðinu Kríuássmegin.

Þannig ætti enginn að snúa við á stæðinu enda skapar það líka enn frekari hættu.

Ég vil því biðja alla að hjálpast að við að bæta umferðarmenninguna fyrir framan skólann, svo ekki fari illa.

Umferðarkveðjur

Leifur skólastjóri


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is