Fyrsti skóladagur í skrýtna ástandinu

17.3.2020

Kæru nemendur, foreldrar og starfsfólk Áslandsskóla

Fyrsti skóladagur í skrýtna ástandinu var í dag. Skólastjórnendur voru að klára hljóð- og myndfund þar sem við tókum saman atburði dagsins. Hljóð- og myndfund þar sem við megum ekki hittast á fundi.

Ég held að það sé óhætt að fullyrða að dagurinn hafi gengið mjög vel í Áslandsskóla. Mæting var framúrskarandi og var virkilega gaman að sjá hversu margir nemendur mættu í skólann. Það var líka áberandi hvað nemendur voru jákvæðir, kurteisir og meðvitaðir um ástandið. Takk kæru foreldrar fyrir að vera greinilega búin að spjalla við ykkar börn og undirbúa, það hefur ekki skort lesefnið frá skólanum hvað þetta varðar undanfarið og greinilega voru allir meðvitaðir. Við erum ákaflega heppin með nemendur í Áslandsskóla, framúrskarandi börn. Svo eiga þau greinilega ábyrga foreldra.

Starfsfólk var vel undirbúið með gott skipulag enda skammur tími fyrir hvern og einn í kennslustofu sem nýta þurfti með faglegum hætti ásamt því að undirbúa næstu skref. Ástandið er líka nýtt fyrir starfsfólki, ekki ætla ég að vona að þetta verði árlegt brauð, en ástandið gerir kröfu um eilítið önnur vinnubrögð og kennsluhætti, eitthvað sem eykur víðsýni og bætir mann í starfi. Við erum líka ákaflega heppin með starfsfólk í Áslandsskóla, framúrskarandi hópur.

Það eru vissulega atriði sem við þurfum að rýna í og reyna að gera aðeins betur á morgun og þar komið þið líka sterk inn við að hjálpa okkur að minna börnin á. Minna á atriði eins og að safnast ekki saman í hópa, hafa bil á milli, engin knús og þess háttar. Vinsamlega ítrekið allt svona við ykkar fólk.

Það er líka mikilvægt að hrósa og vera hvetjandi, ekki gleyma því. Því vil ég biðja ykkur um að skila þakklæti og góðri kveðju til ykkar barna frá mér.

Kærar þakkir fyrir daginn

Skólakveðja

Leifur skólastjóri


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is