SÖFNUNIN BÖRN HJÁLPA BÖRNUM 2017

16.3.2017

Forseti Íslands, Hr Guðni Th. Jóhannesson, setti söfnunina í Áslandsskóla í morgun.  Söfnunin stendur frá 16. mars til og með 9. apríl  og munu börnin ganga í hús í sínu hverfi og safna framlögum í sérmerkta söfnunarbauka. 

Nemendur úr 5. bekk Áslandsskóla taki þátt í söfnuninni BÖRN HJÁLPA BÖRNUM 2017, sem er árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar í samstarfi við grunnskóla landsins. 

Börnin geta safnað á þeim tíma sem  þeim hentar. Um helgar frá hádegi eða á virkum dögum eftir að fólk er almennt komið heim úr vinnu. Gert er ráð fyrir að þau séu tvö til þrjú saman við að safna í baukana. Að söfnun lokinni er baukunum skilað til kennara. Börnin fá höfuðklút “buff” merkt ABC til að auðkenna sig með og viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna. 

Þetta er 20. árið sem þessi söfnun grunnskólabarna fer fram og er hún  mjög mikilvæg fjáröflun fyrir ABC barnahjálp. Fyrir afrakstur þessara safnana í gegnum árin hafa byggingar fjölmarga skóla og heimila fyrir fátæk börn í þróunarlöndum verið fjármagnaðar.  

Á heimasíðu ABC barnahjálpar www.abc.is má sjá upplýsingar um ABC barnahjálp. 

Verkefni sem þetta tengist með beinum hætti hornstoðum Áslandsskóla, vinnu með allar dygðir, efla hnattrænan skilning, þjónustu við samfélagið og að gera allt framúrskarandi vel. 


Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is