Ávarp skólastjóra á aðalfundi foreldrafélagsins í gærkveldi

10.5.2008

Kæru forráðamenn


Að eiga barn á grunnskólaaldri krefst mikils af foreldrum. Það er að ýmsu að hyggja. Væntingar okkar til barna okkar eru oft miklar og við leggjum oft á þau þungar byrðar, t.d. hvað varðar gæslu á yngri systkinum og fleiri “skylduverka” á heimilinu auk náms, íþrótta– og félagsstarfa.

Öflug tenging heimila og skóla eru nauðsynleg. Ein helstu rökin fyrir því að foreldrar tengist skólum náið byggjast á niðurstöðum fjölda rannsókna að þátttaka foreldra og áhugi hafi veruleg áhrif á námsgengi barna. Foreldrum er annt um að börn sín taki framförum í námi og foreldrar þurfa einnig að fá að vita hvaða forsendur liggja að baki þegar frammistaða barna þeirra er metin.

Hver sem bakgrunnur foreldra kann að vera er samstarf við þá auðlind sem Áslandsskóli hefur allt frá upphafi talið skynsamlegt að virkja. Nauðsynlegt er að slíku samstarfi séu sett skýr markmið og það einkennist af trausti, jákvæðni, bjartsýni og virðingu. Þannig skapar það verulega möguleika á að hafa jákvæð áhrif á skólastarfið.

Þó svo að kennari sé að jafnaði einn með nemendum í kennslustofunni fer því fjarri að það sem þar gerist sé einkaábyrgð hans. Allt skólasamfélagið ber sameiginlega ábyrgð á árangri kennslunnar.

Umhyggja, áhugi og virk þátttaka foreldra í námi barna eru bráðnauðsynleg atriði til að árangur verði framúrskarandi. Því hefur þátttaka foreldra í menntandi og þroskandi viðfangsefnum á heimilinu og í skólanum mikil áhrif á námsárangur barna. Það að t.d. lesa með eða fyrir börnin, sjá þeim fyrir bókum, sækja fundi er tengjast námi þeirra og starfi í skólanum ásamt þátttöku í námsferðum eru allt hlutir sem hægt er að finna sig í. Þátttaka í skólakynningum, námskeiðum sem boðið er uppá eða einfaldlega að merkja við í lestrarbókina, allt hefur þetta áhrif til betri vegar.

Það er því nauðsynlegt, nú í lok skólaárs, að við foreldrar lítum í eigin barm og skoðum hvort við sýnum námi barna okkur nægilegan jákvæðan áhuga. Áhuga sem fleytt gæti nemendum upp brattar brekkur á námsferlinum. Öll höfum við mikið að gera við að færa bjargir í bú en það má ekki hafa þau áhrif að við gleymum að rækta það dýrmætasta sem við eigum.

Ég vil fyrir hönd skólans þakka forráðamönnum samstarfið á skólaárinu. Einnig vil ég þakka þau jákvæðu viðbrögð sem skólastjóri fékk við bréfi sínu í liðinni viku og hvetja forráðamenn til að sýna starfinu í Áslandsskóla áfram áhuga og virðingu með jákvæðum hætti.

Áslandsskóli | Kríuási 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 585 - 4600 | Netfang: aslandsskoli@aslandsskoli.is